22/12/2024

Vegurinn í Bæjarhreppi

Aðsend grein: Sveinn Karlsson
Sá hluti Djúpvegar (nr. 61) sem liggur um Bæjarhrepp á Ströndum og er enn ómalbikaður er að verða illfær vegna slæms viðhalds. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá er yfirborð hans mjög gróft og endalaust ryk fylgir umferðinni á þurrum dögum. Bíleigendur verða daglega fyrir tjóni með því einu saman að aka þarna um, grjótkast er mikið, dekk hafa eyðilagst og á dögunum brotnað felga þegar ökumanni tókst ekki að þræða hinn gullna meðalveg á milli djúpra hola og stórra steina á veginum. Varð viðkomandi fyrir tilfinnanlegu tjóni.

Greinarhöfundi þykir líklegt að svona vegur hefði þótt slæmur sem hestvagnavegur fyrr á öldum og er hreinlega ekki að sjá að þetta sé nútímavegur, ætlaður nútíma ökutækjum. Umræddur vegarkafli sem er frá Prestbakka að Guðlaugsvík telur um 16 km. Er hann meira og minna svona eins og myndirnar sýna, allur fínn ofaníburður á bak og burt og stórgrýtið blasir við, sem þýðir að útilokað er að hefla hann svo árangur náist.

Fjárveiting var veitt til að fullklára þennan kafla fyrir mörgum árum, en sú fjárveiting var færð til og sett í aðrar vegaframkvæmdir norðar í sýslunni og hefur hún ekki skilað sér til baka. Þar sem fyrir liggur að yfirkeyra þarf þennan spotta með fínu efni til að gera hann ökufæran, þá væri nú lag að spara peninga og sleppa ofaníburðinum og drífa á hann malbik á næstu misserum því hann er nánast tilbúinn undir slíkt. Staðreyndin er sú að þetta er og verður eitthvað áfram aðalvegurinn norður Strandir og vestur til Vestfjarða og í dag fer um þennan veg óhemju umferð og er þungaumferð stór hluti af henni.

Nú hefur verið ákveðið að leggja nýjan veg um Arnkötludal, sem styttir leiðina nokkuð fyrir suður-vestur umferðina, en vænta má að umferð í aðrar áttir verði líka töluverð um ókomna framtíð. Um þessar mundir keppast bæði þingmenn og aðrir frambjóðendur til þings um að lofa væntanlegan veg um Arnkötludal og þar vildu allir Lilju kveðið hafa. Mætti álykta að í þeirra augum skipti aðrir vegir litlu máli. Það er samt deginum ljósara að nýr vegur um Arnkötludal leysir ekki allra vanda og þrátt fyrir að nú sé ákveðið að leggja hann þá má ekki gleyma þeim vegum sem fyrir eru og hafa áfram fullt gildi. Það má ekki alveg gleyma að ala upp króann sem fyrir er, þótt nýr fæðist.

Það má spyrja hvað veldur því að vegir eru látnir fara svona sem raun ber vitni. Hafa ráðamenn í héraði sofið á verðinum og ekki knúið á um fjármagn eða hefur Vegagerðin ekki staðið sig sem skildi? Það eitt er víst, að þeir sem þurfa að fara þarna um eiga betra skilið. Mikið hefur verið rætt um að einn af vaxtabroddum Vestfjarða sé ferðaþjónusta, og er ekki nokkur vafi á því að góðir vegir eru ein af forsendum þess, að það nái að þróast.

Að lokum þá væri fróðlegt að fá svör frá samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni og öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis um hvort þeir væru sáttir við að nota svona vegi dags daglega. Og hvort þeir séu sáttir við að skilja svona við í lok kjörtímabils.

Sveinn Karlsson, Borðeyri
Myndir: Sveinn Karlsson og Hannes Hilmarsson

580-ovegur1 580-ovegur2 580-ovegur11 580-ovegur10 580-ovegur9 580-ovegur8 580-ovegur7 580-ovegur6 580-ovegur5 580-ovegur4 580-ovegur3

Ljósm. Hannes Hilmarsson og Sveinn Karlsson