22/12/2024

Vegir í sundur vegna vatnavaxta

IMG_6436

Þjóðvegurinn er lokaður beggja vegna Hólmavíkur vegna gríðarlegra vatnavaxta í gær. Vegurinn fór í sundur fyrir kvöldmat í gær við Hvítá sem venjulega er sakleysislegur lækur sem rennur í Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík. Í vatnavöxtunum í gær hætti ræsið að taka við vatnsmagninu og á endanum rauf Hvítáin veginn. Það er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist, síðast rauf Hvítáin mikið skarð í veginn 8. maí 1993. Mikil vinna er framundan við lagfæringar. Gríðarmikið vatn er líka í Staðará í Staðardal og þar hefur flætt víða yfir veginn með þeim afleiðingum að hann fór í sundur þar líka nálægt vegamótunum að Drangsnesi. Rúta full af ungmennum frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki sem var á leið frá Ísafirði beið í nótt með alla farþegana í Staðardalnum. Tjón hefur einnig orðið vegna vatnselgsins í húsum. Nú er farið að kólna á Hólmavík og úrkoman í formi élja.