22/12/2024

Vegatengingar frá ýmsum sjónarhornum

Framkvæmdir á nýjum veg um Arnkötludal, frá Steingrímsfirði yfir í Breiðafjörð, hefjast á þessu ári og vegurinn verður tilbúinn haustið 2008 ef áætlun samgönguráðherra gengur eftir. Með tilkomu vegarins styttist akleiðin af Suður- og Vesturlandi á Strandir og Vestfirði verulega. Styttingin nemur um 40 km og verður aksturstími til Hólmavíkur frá Reykjavík u.þ.b. 2 1/2 klst eða um 233 km í stað 273 km eins og leiðin liggur í dag. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is teiknaði inn vegakort fyrir lesendur vefjarins með aðstoð Google Earth forritsins til glöggvunar á vegtengingum framtíðarinnar við Strandir og Vestfirði. 

Helsta breytingin á leiðinni að sunnan á Strandir með tilkomu vegarins um Arnkötludal verður sú að ferðalangar á leið af Suðurlandi beygja út af þjóðvegi nr. 1 við Bröttubrekku, fáeinum kíómetrum norðan við Bifröst í Borgarfirði. Leiðin liggur svo um Dalina í gegnum Búðardal og áfram yfir Svínadal og í Króksfjarðarnes. Skömmu síðar er beygt yfir á nýja veginn sem liggur þvert yfir Geiradal yfir í Gautsdal og þaðan yfir nokkuð háan en stuttan háls (368 m), sem er lítið eitt hærri en vegurinn yfir Eyrarfjall í Ísafjarðardjúpi, og niður í Arnkötludal þar sem vegastæðið mætir núverandi Djúpvegi nr. 61, rétt sunnan við Hólmavík.

Fjallvegum á leiðinni fækkar ekki með tilkomu nýja vegarins um Arnkötludal þó að ekki þurfi að aka um Holtavörðuheiði (407 m), Stikuháls (165 m), og Ennisháls (290 m). Vegurinn um Bröttubrekku nær upp í 402 m og leiðin um Svínadal liggur hæst í 220 m. yfir sjávarmáli.

Þegar meðfylgjandi kort eru skoðuð þá er það áberandi að leggja þarf einnig áherslu á að veginum suður Strandir verði ekki gleymt á vegaáætlunum næstu ára, sérstaklega þegar litið er á tengingu við Norðurland. Það er ekki lögmál að ferðamenn aki réttsælis um landið, en vitað er að stór hluti ferðamanna sem leggja leið sína á Strandir koma að austan, í gegnum Norðurland auk mikillar umferðar af Vestfjörðum og Ströndum sem ætlar sér áfram í austurátt, um Norðurland. Fyrir utan þá sjálfsagðu kröfu íbúanna þar á svæðinu að geta komist hættulaust heim og að heiman.

Ekki verður um neina styttingu að ræða við Norðurland og raunar hafa margir áhyggjur af því að leiðin suður Strandir muni ekki fá það viðhald sem vegurinn þarf á að halda í nánustu framtíð. Á þeirri leið er fjöldi einbreiðra brúa og vegurinn um Kollafjörð og Bitrufjörð beinlínis hættulegur og 40 km af leiðinni er ekki lagður bundnu slitlagi. Auk þess sem hluti vegarins um Bitrufjörð er lagður varhugaverðu slitlagi, svo ekki sé meira sagt, svo örmjóu að margir óttast að mæta öðrum ökutækjum.

Nýr vegur um Arnkötludal getur haft mjög jákvæð áhrif fyrir búsetumöguleika og atvinnulíf á Ströndum, sérstaklega með tilliti til hverskyns mögulegs samstarfs við Vesturland og meiri nálægðar við stærsta markaðssvæði landsins.

Vegamynd
Horft suður úr Steingrímsfirði


Sjónarhorn frá Borgarfirði vestur og norður um

vegamal/580-strandavegir3.jpg
Sjónarhorn frá Dölum yfir á Strandir