05/11/2024

Vegagerð um Arnkötludal gengur vel

Vegamót við GautsdalÁ vefnum www.skessuhorn.is er haft eftir Guðmundi Rafni Kristjánssyni deildarstjóra nýframkvæmda á norðvestursvæði hjá Vegagerðinni að gerð vegar um Arnkötludal miði vel. Eins og kunnugt er byrjaði verktakinn Ingileifur Jónsson úr Árnessýslu á veginum í fyrravor og er gert er ráð fyrir að hann verði orðinn ökufær á neðra burðarlagi 1. desember. Fullnaðarfrágangi með bundnu slitlagi á síðan að vera lokið 1. september næsta sumar. Á Skessuhorni segir að Dalamenn hafi miklar væntingar til þessara samgöngubóta og betri tengingu við Vestfirði, en heilsársvegur milli Suðurlands, Vesturlands og sunnanverðra Vestfjarða annars vegar og norðanverða Vestfjarða og Stranda norðan vegamóta í Steingrímsfirði hins vegar styttist með þessari tengingu um 40 kílómetra.

Á www.skessuhorn.is segir ennfremur:

"Grímur Atlason nýráðinn sveitarstjóri í Dalabyggð segir að vegurinn um Arnkötludal gefi mikla möguleika fyrir sveitarfélagið, ekki einungis vegna aukinnar umferðar í gegn, heldur einnig varðandi aukna samvinnu við önnur sveitarfélög allt norður í Árneshrepp. Sveitarfélögin eru nú þegar með sameiginlega þjónustu svo sem varðandi byggingaeftirlit. Byggingarfulltrúi í Búðardal þjónar einnig Reykhólahreppi og Árneshreppi.

Guðmundur Rafn hjá Vegagerðinni segir vafa leika á skynsemi þess að hleypa á umferð næsta vetur, þar sem neðra burðarlagið verði mjög gróft og yfirborð spillist fljótt. Við slíkar aðstæður sé erfitt að aka 24 kílómetra, en það er lengd Arnkötludalsvegar frá þjóðveginum við Króksfjarðarnes niður í Steingrímsfjörð skammt frá Hólmavík. Búið er að keyra í vegstæðið að stærstum hluta að sunnanverðu í Gautsdal þar sem 10 km vegarins eru og í vor og framan af sumri hefur einnig verið unnið að ræsagerð. Nú er mesti þunginn í efniskeyrslu niður Arnkötludalinn í Steingrímsfjörð og ekið úr námum á vatnsskilum efst á Tröllatunguheiði. Að sögn Guðmundar Rafns er þar kominn fjögurra kílómetra vegarslóði sem unnið er á og lengist með degi hverjum. Ennþá á því eftir að keyra efni í um 10 kílómetra vegarins."