22/12/2024

Vegaframkvæmdir á Ströndum

Samkvæmt breytingatillögum og viðbótum Samgöngunefndar Alþingis við Samgönguáætlun 2007-2010 og 2007-2018 verða allnokkrar vegaframkvæmdir á Ströndum næstu árin. Á langtímaáætlun voru t.d. 100 milljónir sem ætlaðar eru til framkvæmda á veginum milli Staðarár og Hálsgötugils í Steingrímsfirði færðar af tímabilinu 2011-2014 til ársins 2010. Ekki tekst þó að ljúka vegi með bundnu slitlagi það ár milli Hólmavíkur og Drangsness, en 180 milljónir til viðbótar eru settar á árabilið 2011-2014 þannig að Strandamenn eru vongóðir um að það verði strax árið eftir.

Engin breyting verður á milli tímabila hvað varðar nýframkvæmdir frá Brú í Hólmavík, einu framkvæmdirnar á árabilinu 2007-2014 verða þær að vegurinn milli Þorpa og Heydalsár verður lagfærður árið 2010. Á tímabilinu 2015-2018 er hins vegar nokkur upphæð ætluð í veginn, en mikil vinna er framundan við vegagerð um sunnanverðan Kollafjörð og Ennisháls á 19 kílómetra kafla, auk þess sem um 16 kílómetra kafli í Hrútafirði er ennþá ólagfærður.

Í kafla um almenn verkefni í Samgönguáætlun 2007-2010 með breytingartillögum og viðbótum Samgöngunefndar er tekið fram að í breikkun slitlaga og vega á Djúpvegi eru settar 78 milljónir árið 2007, 60 milljónir 2008 og 45 milljónir 2009. Ekki þarf neinn snilling til að sjá að einbreiða slitlagið og vegurinn í Bitrufirði beinlínis hlýtur að vera fremst í þeirri forgangsröð.

Nú hefur einnig verið birt fyrirhuguð skipting á vegafé til ferðamannaleiða og tengivega næstu 4 ár og þar með skýrist hvað verður gert á leiðinni yfir Bjarnarfjarðarháls og norður í Árneshrepp og eins á veginum frá Hálsgötugili út að Drangsnesi og áfram þaðan í Bjarnarfjörð.

Í framlögum til tengivega utan grunnnets eru ætlaðir peningar í Strandaveg (nr. 643), Ásmundarnes-Kaldbaksvík, að upphæð 23 milljónir 2007. Einnig í Strandaveg (nr. 643), Djúpveg-Drangsnesvegur, sem settar eru 50 milljónir í árið 2009 og annað eins 2010.

Í Drangsnesveg (nr. 645), Strandavegur-Drangsnes, eru settar 60 milljónir 2007 og 44 milljónir 2008, þannig að væntanlega tekst að ljúka vegagerð frá Hálsgötugili að Drangsnesi fyrir það framlag.

Áætlunin gerir ennfremur ráð fyrir framlagi til ferðamannaleiða til Strandavegar (nr. 643) um Bjarnafjarðarháls að upphæð 60 milljónir árið 2008. Til vegarkaflans frá Kolbeinsvíkurá að Djúpavík á sama vegi eru settar 30 milljónir 2009 og 29 milljónir 2010.

Engin framlög eru til brúargerðar fyrir brýr sem eru 10 metrar eða lengri á Ströndum á árabilinu 2007-2010.