22/12/2024

Vefurinn Litlihjalli.is hættur

litlihjalli

Í tilkynningu á vefnum Litlihjalli.is kemur fram að Jón Guðbjörn Guðjónsson vefstjóri og eigandi vefjarins hyggst loka vefnum og hætta fréttaskrifum nú um áramótin, en hann hefur í mörg ár verið ötull við að skrifa þar fréttir úr Árneshreppi. Í tilkynningunni þakkar Jón Guðbjörn Snerpu fyrir samstarfið, Árneshreppi fyrir styrkveitingar í gegnum árin og þeim sem hafa auglýst á Litlahjalla.is. Auglýsingar á vefnum og aðrir styrkir hafi þó ekki dugað fyrir föstum gjöldum af vefnum og vefurinn rekinn með tapi í öll árin. Þá þakkar vefstjórinn öllum lesendunum sem tóku vefnum mjög vel, allt frá byrjun. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is sendir Jóni Guðbirni bestu þakkir fyrir fréttaflutninginn á liðnum árum.