22/11/2024

Vefmyndavél úr arnarhreiðri

Fullorðinn fugl matar unga sinn á hreiðrinuArnarsetur Íslands sem verið hefur í undirbúningi síðustu misseri hefur nú sett upp vefmyndavél við arnarhreiður við Breiðafjörð þar sem hægt er að fylgjast með össu fóðra unga sinn. Þetta er kærkomið tækifæri fyrir alla náttúruunnendur að fá að fylgjast með högum arnarins, en það er bannað samkvæmt náttúruverndarlögum að vísa á hreiður arnarins. Vefmyndavélina má nú nálgast í gegnum kynningarborða á forsíðu vefjarins www.eyjasigling.is, en hún birtir nýja mynd á örfárra sekúndna fresti. Eftir að leyst hefur verið úr nokkrum tæknimálum til viðbótar á að verða um hreyfimynd að ræða sem allir geta nálgast.

Í gengum vélina má sjá ungann á hreiðrinu, þegar hann kúrir sig ekki um of niður í grasið. Öðru hverju koma fullorðnu fuglarnir með æti og þá er heldur betur líf í tuskunum. Þeir virðast einkum vera á hreiðrinu um kvöldmatarleitið og á kvöldin og morgnanna.

Það eru hjónin Bergsveinn Reynisson og Signý M. Jónsdóttir á Gróustöðum sem eru frumkvöðlar að Arnarsetri Íslands og stefna að frekari uppbyggingu, sögusýningu og fræðasetri í Króksfjarðarnesi í framtíðinni. Vefmyndavélin er því aðeins fyrsta skrefið í þeirri viðleitni íbúa Reykhólahrepps að fræða fólk um lifnaðarhætti og sögu þessa konungs íslenskra fugla.

 

Ljósmynd úr vefmyndavélinni