Í dag hefur verið leiðindaveður á Ströndum eins og víðast annars staðar á landinu. Skammtíma veðurspáin gerir ráð fyrir norðanátt upp á 13-18 m/sek sem eykst síðan þegar líður á kvöldið í 18-23 m/sek . Þessu fylgir talsverð ofankoma og frostið verður á bilinu 0-5 stig. Þetta leiðindaveður á síðan að ganga niður að mestu á morgun. Mikill skafrenningur er á Ströndum en Steingrímsfjarðarheiði er þó fær, rétt eins og Ennisháls og Stikuháls. Ófært er norður í Árneshrepp. Allar upplýsingar um færð og veður má nálgast á vefjum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar auk þess sem hægt er að fá upplýsingar um færð hjá Vegagerðinni í síma 1777.