22/12/2024

Veðrasamt og varasamt

Töluvert hefur hvesst úr austri og suðaustri við Steingrímsfjörð eftir 11 í morgun, en fram að því var vindur hægur. Skólabíll gekk um sveitir og skólahald er eðlilegt á Hólmavík, en skólabíll gekk ekki í gærmorgun sökum hálku og vinds. Ekki er enn orðið mjög hvasst nú um 12 leytið, en nokkrar kviður. Veðurspá er slæm fyrir daginn og ekkert ferðaveður víðast um landið. Óveður er í Hrútafirði eins og sjá má af meðfylgjandi korti Veðurstofunnar af www.vedur.is frá því klukkan 11 í morgun. Vindhviður höfðu farið í 38 m/s á Reykjum í Hrútafirði fyrir hádegi.

Minniháttar foktjón hefur orðið víða í suðvestanáttinni í gær, hér hefur þak losnað á fjárhúsum á bænum Hrófá við Steingrímsfjörð. Suðaustanátt eins og er í dag er yfirleitt ekki mjög hvassviðrasöm á Ströndum, en þó geta komið miklar vindhviður úr suðaustri á ákveðnum stöðum og valdið tjóni.