22/12/2024

Valgerður og Ásbjörn eru Strandamenn ársins 2007

Ásbjörn og ValgerðurLesendur strandir.saudfjarsetur.is og Gagnvegar kusu hjónin Valgerði Magnúsdóttur og Ásbjörn Magnússon á Drangsnesi Strandamenn ársins 2007. Um 300 atkvæði bárust í seinni umferðinni, en kosning Valgerðar og Ásbjarnar í 1. sætið var örugg og afgerandi. Mun meiri spenna ríkti um næstu sæti í kosningunni og réðist röðin þar ekki fyrr en á lokadegi kosningar. Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs varð annar og síðan komu Guðjón Þórólfsson og Kristín S. Einarsdóttir. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is óskar Valgerði og Ásbirni hjartanlega til hamingju með titilinn sem þau eiga sannarlega skilinn.

Ásbjörn og Valgerður hafa staðið í ströngu við uppbyggingu ferðaþjónustu á Drangsnesi á árinu 2007. Nýtt gistihús á Drangsnesi, Gistiheimilið Malarhorn, var opnað um vorið og síðan var nýtt kaffihús með nafninu Malarkaffi opnað á Bryggjuhátíðinni í sumar. Ásbjörn hefur árum saman boðið upp á siglingar og sjóstangaveiði á bát sínum Sundhana og síðustu ár hefur einnig verið boðið upp á áætlunarferðir í Grímsey og hefur lendingaraðstaða þar verið lagfærð mikið. Vef Gistiheimilisins Malarhorns, Malarkaffis og Sundhana má finna á slóðinni www.strandir.saudfjarsetur.is/malarhorn, en vefurinn var opnaður síðastliðið sumar.

Í tilnefningum sem bárust í fyrri umferð segir meðal annars um þeirra framtak á sl. ári: að þau "láti verkin tala", að framkvæmdasemi þeirra "bæti þjónustu á svæðinu, styrki atvinnu og bæti ímynd Drangsnesinga", að þau sýni "dugnað og þor" og "hafi trú á framtíð staðarins". Ekki liggur fyrir hvenær verðlaunin verða afhent, en frá því verður sagt þegar þar að kemur.

Fyrir skemmstu fengu Valgerður og Ásbjörn einnig verðlaun frá klasasamstarfinu Arnkatla 2008, fyrir framfaraspor í ferðaþjónustu á árinu 2007.