21/11/2024

Útboðsbanni aflétt

Í stefnuræðu Geirs Haarde forsætisráðherra í gær kom fram að ríkisstjórnin hefur nú aflétt banni við útboðum sem hafði verið í gildi frá því í júní. Því má eiga von á að brýn samgönguverkefni á Vestfjörðum verði boðin út á næstunni, enda ætti nú Vegagerðinni að hafa gefist gott svigrúm til að ganga frá undirbúningi þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Strandabyggð hefur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fullvissað sveitarstjórnarmenn á Ströndum um að vegagerð um Arnkötludal og Gautsdal hefjist fljótlega og ljúki fyrir árslok 2008, eins og áður var stefnt að. Fjölmörg önnur verkefni í vegagerð á Ströndum hafa einnig verið í biðstöðu.

Hólmavík á Ströndum er eini þéttbýlisstaðurinn á landinu með meira en 200 íbúa og í minna en 350 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík þar sem heilsársvegur er ekki lagður bundnu slitlagi alla leið. Hefur verið svo í fjölmörg ár. Íbúafjöldinn á Hólmavík sem er fjórði stærsti þéttbýliskjarni á Vestfjörðum er 380 og vegalengdin milli Hólmavíkur og Reykjavíkur er 272 kílómetrar. Vegurinn um Arnkötludal bætir úr þessu og styttir einnig leiðina um hér um bil 40 kílómetra, en eftir sem áður eru fjölmörg samgönguverkefni óleyst innan héraðsins fyrir íbúa þess og gesti.

Enn eru malarvegir á Ströndum sunnan Hólmavíkur um það bil 39 km langir og skiptast í þrjá spotta, tæplega 16 km milli Prestbakka og Guðlaugsvíkur í Hrútafirði, 19 km kafla frá Bræðrabrekku í Bitrufirði að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði og 4 km kafla frá Þorpum að Heydalsá við Steingrímsfjörð. Einnig er eftir að lagfæra töluvert langan kafla af stórhættulegu einbreiðu malbiki í Bitrufirði og eftir að nýja brúin yfir Selá í Hrútafirði verður tekin í notkun eru ennþá eftir 13 einbreiðar brýr frá Brú að Hólmavík. 

Vegagerð innan héraðs á Ströndum er nánast alls staðar stórkostlega á eftir sínum samtíma. Það var löngum baráttumál Fjórðungssambands Vestfjarða að nálægir þéttbýliskjarnar á Vestfjörðum væru tengdir saman með bundnu slitlagi. Nú eru liðin svo mörg ár síðan það náðist, alls staðar nema á Ströndum, að menn virðast á þessum vettvangi að mestu leyti hættir að muna eftir þessu baráttumáli. Enn eru malarvegir á alllöngum kafla milli Drangsness og Hólmavíkur, en vegalengdin á milli þessara þéttbýliskjarna við Steingrímsfjörð er 34 kílómetrar og liggur vegurinn alla leiðina með sjó og engir sérstakir erfiðleikar með vegagerð á þessu svæði. Það er aðeins viljann til að veita Strandamönnum sömu þjónustu og öðrum landsmönnum sem skortir.

Í þriðja lagi má nefna að Árneshreppur á Ströndum er eina 50 manna byggðin á Íslandi sem má búa við það að þangað eru ekki heilsárssamgöngur á landi. Vegurinn í Árneshrepp lokast vegna snjóa í nokkra mánuði á ári hverju, og hefur að jafnaði verið lokaður 3-4 mánuði í snjóleysinu síðustu vetur. Þá er ónefndur óvegurinn yfir Bjarnarfjarðarháls, en hann hefur í fjölmörg ár þurft nauðsynlega að endurnýja, ferðaþjónustu og byggð í Bjarnarfirði til framdráttar.