23/12/2024

Útboð á Drangsnesvegi komið á vefinn

Auglýsingin frá Vegagerðinni um útboð á endurlögn Drangsnesvegar (645) um Selströnd í Steingrímsfirði í Kaldrananeshreppi ásamt gerð tilheyrandi tenginga er núna komin á vefinn. Vegarkaflinn er alls 7,58 kílómetra langur milli Hálsgötu þar sem vegamótin yfir Bjarnarfjarðarháls eru og heimreiðarinnar að Kleifum á Reykjanesi. Þrátt fyrir þetta verkefni verður enn ekki komið bundið slitlag á milli Drangsness og Hólmavíkur. Eftir stendur kaflinn frá vegamótum Strandavegar (643) og Djúpvegar (61) í Staðardal að vegamótum Strandavegar (643) og Drangsnesvegar (645) við Hálsgötugil sem er um 7 kílómetrar.

Verkefninu skal að fullu lokið 1. nóvember 2007 og útlögn klæðningar skal að fullu lokið 1. september 2007, en fram kom í frétt í morgun að fjárveitingu til verksins væri skipt á árin 2007 og 2008. 

Helstu magntölur eru:

Fylling og fláafleygar 4800 m3
Efnisvinnsla 17500 m3
Neðra burðarlag 6000 m3
Efra burðarlag 11300 m3
Klæðing 49500 m2
Frágangur fláa 61200 m3
Rofvarnir 3000 m3

Útboðsgögn verða seld hjá Vegagerðinni, Dagverðardal á Ísafirði og Borgartúni 7 í Reykjavík (móttaka) frá og með mánudeginum 16. apríl 2007. Verð útboðsgagna er 4.000 kr. Skila skal tilboðum á sömu stöðum fyrir kl 14:00 miðvikudaginn 2. maí  2007 og verða þau opnuð þar kl. 14:15 þann dag.