23/12/2024

Utangarðs? í Sævangi á sunnudag

utangards

Sunnudaginn 15. nóvember kl. 14:00 munu Sigríður Hjördís Jörundsdóttir og Halldóra Kristinsdóttir, höfundar bókarinnar Utangarðs? Ferðalag til fortíðar, flytja fyrirlestur og kynna bók sína um utangarðsfólk á Vesturlandi og Vestfjörðum á 19. öld. Erindið fer fram á Sauðfjársetrinu í Sævangi, fjallað er um fjölda Strandamanna og góðkunningja þeirra í bókinni, m.a. Þorpa-Guddu, Eirík koparhaus Ólsen, Jón bassa Strandfeld og Ástar-Brand. Allir eru velkomnir á viðburðinn og bókin verður á sérstöku tilboðsverði kr. 3.999.- Í kynningu á bókinni og viðburðinum í Sævangi segir í tilkynningu:

„Alþýðu manna var þröngur stakkur skorinn í sveitasamfélaginu á Íslandi fyrr á tíð. Þeir sem voru „öðruvísi“ — til dæmis bókaormar og þeir sem hneigðust til lista, fatlað fólk og veikt eða þeir sem höfðu misst fótanna í lífinu — lentu gjarnan utangarðs og áttu ógóða ævi.

Í þessari bók er sagt frá utangarðsfólki og förufólki á Vesturlandi og Vestfjörðum frá síðari hluta 18. aldar og fram á fyrstu ár 20. aldar. Saga einstaklinganna er rakin og dregin fram skjöl og handrit sem tengjast þeim. Slóð utangarðsfólks leynist ótrúlega víða þegar betur er að gáð — og fjöldi þess kemur á óvart.

Benjamín Jónsson (1877–1920)

Faðir Benjamíns hét Jón Jónsson, bóndi og síðar húsmaður á Eyri í Ingólfsfirði. Jón var kvæntur Helgu Guðmundsdóttur og áttu þau nokkur börn. Kvennamál Jóns voru æði skrautleg, svo ekki sé meira sagt.

Ein þeirra kvenna sem urðu fyrir barðinu á Jóni var Guðríður Jóhannesdóttir vinnukona í Drangavík. Bar fundum þeirra þannig saman að Jón, sem var hákarlaskipsformaður, lenti eitt sinn í sjávarháska og strengdi hann þess þá heit að gilja konu á þeim stað sem hann kæmi að landi. Komst skipið að landi við Drangavík þar sem Guðríður, eða Gudda, var vinnukona, og nokkrum mánuðum síðar ól hún son, Benjamín.

Benjamín fylgdi móður sinni framan af ævi og var hann skráður sveitarómagi til heimilis í Drangavík fram að fermingu. Hann var talinn hálfgerður vanviti og mun ekki hafa unnið mikið. Þvælist hann á milli bæja í Árnessókn lengst af ævinni. Hann lést í Skjaldbjarnarvík 1920.

Guðbjörg Bjarnadóttir (1741–1812), Þorpa-Gudda, Mjaka

Guðbjörg var fædd í Dagverðarnesi á Skarðströnd í Dalasýslu. Hún giftist Tómasi Jónssyni bónda í Miðdalsgröf í Steingrímsfirði og eignuðust þau fjögur börn. Eftir að Tómas dó bjó Guðbjörg hjá dóttur sinni, Ingibjörgu, og manni hennar, Gísla Eiríkssyni, bónda og hreppstjóra á Þorpum í Steingrímsfirði. Sveitarstjórnarmenn í Kaldrananeshreppi og Kirkjubólshreppi deildu um það hvoru megin fjarðar hún ætti sveitfesti og virðist Gísla hafa verið mikið í mun um að losna við hana frá Þorpum. Ber heimildum ekki saman um hvernig örlög hennar urðu. Eru ýmsar sögur til af Guddu, sem flestar eru í þjóðsagnastíl og segja frá því þegar hún sótti að fólki eftir dauðann. Færri sögum fer þó af lífi þessarar konu sem endaði ævina sem hreppsómagi.“