Á hreppsnefndarfundi í Bæjarhreppi á dögunum var samþykkt að hækka útsvarsprósentu í 13,03% og er prósentan þá orðin sú sama í öllum sveitarfélögum á Ströndum, en hún hefur verið lægri í Bæjarhreppi. Ástæðan er að fram hefur komið að aukaframlag Jöfnunarsjóðs er eingöngu greitt til þeirra sveitarfélaga sem fullnýta heimild til útsvarsálagningar og telur hreppsnefnd Bæjarhrepps eðlilegt að leggja á 13,03% útsvar til að verða ekki af verulegum fjármunum frá Jöfnunarsjóðnum á árinu 2008. Á sama fundi fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun fyrir 2008 og álagningarprósenta vegna fasteignaskatts var ákveðin.