26/12/2024

Uppsetning sýningar í Sævangi

Í dag er mikið um að vera að venju á Ströndum, bændur á kafi í sauðburði og Hólmvíkingar ætla að sameinast um að hreinsa þorpið í dag og hefst sú vinna undir stjórn hverfisstjóra kl. 13. Síðan verður sameiginleg grillveisla við skólann kl. 18. Sauðfjársetursmenn ætla að setja upp sögusýninguna sína í Sævangi í dag og hefjast þær framkvæmdir kl. 14:00 eða þegar Formúlukeppni nokkurri í Mónakó lýkur. Sjálfboðaliðar á öllum aldri til að leggja hönd á plóg í Sævangi eru vel þegnir og er kaffi og vöfflum lofað öllum þeim sem reka inn nefið. 

Rekstur Sauðfjársetursins í Sævangi verður með hefðbundnu sniði í sumar, en nýlega var gengið endanlega frá leigu hússins undir starfsemina í sumar og uppgjöri fyrir leiguna fyrir fyrri ár. Af atburðum ber hæst Furðuleikana 2006 sem verða 2. júlí og Meistaramótið í hrútadómum sem verður 27. ágúst þetta árið. Von er á fyrsta hópnum í heimsókn á Sauðfjársetrið þann 3. júní, en opnað verður þann 1. júní að venju.