22/11/2024

Ungur maður villtist í Kollafirði

Í gær rétt um kl. 16:00 villtist ungur maður í fjallgöngu á fjallið Klakk í botni Kollafjarðar frá félögum sínum. Fjöldi björgunarsveitarmanna frá Hólmavík leitaði að manninum og einnig leitarmenn úr björgunarsveitum í nágrenninu, auk þess sem bændur lögðu lið við leitina og svipuðust um eftir manninum. Í gærkvöld var einnig búið að kalla út björgunarsveitarfólk af höfuðborgarsvæðinu sem ætlaði að mæta með leitarhunda á svæðið, en maðurinn fannst síðan rétt fyrir miðnætti við Hvítarhlíð í Bitrufirði og hafði þá gengið um allstórt svæði. Honum varð ekki meint af villunni.

Árni Þór Baldursson smellti af nokkrum myndum í stjórnstöðinni á Hólmavík, en eftir leitina var haldinn fundur með leitarmönnum til að fara yfir hvað mætti betur fara við leit sem þessa.

Ljósm. Árni Þór