Nú er undirbúningur Bryggjuhátíðar kominn á fullt og helstu atriði dagskrár komin á hreint en hátíðin verður haldin um næstu helgi. Ljósmyndasýningar Bryggjuhátíðar eru komnar upp. Í skólanum er sýningin Mannlíf í Kaldrananeshreppi. Þar eru gamlar ljósmyndir sem sýna mannlíf fyrri tíma stækkaðar og settar upp til sýningar. Þessar myndir hafa ekki verið sýndar áður en fólkinu á sumum myndunum hefur þó brugðið fyrir á fyrri sýningum.Danskur maður, John Wosborg, var á ferð um Strandir síðasta sumar og myndaði það sem fyrir augu bar. Myndir hans eru nú komnar á húsvegg og verður sýningin „Á ferð um Strandir“ uppi fram eftir sumri.
Fyrir Bryggjuhátíð kemur fólk saman og vinnur að hinum ýmsu þjóðþrifamálum. Dittar að hinu og þessu eða slær illgresið sem allsstaðar veður uppi. Verkefnin eru óþrjótandi.
Allir sem hafa lagt hönd á plóg eru í glimrandi vinnustuði og það verður enn meira nú í kvöld föstudagskvöldið 11. júlí. Þá verður komið saman við samkomuhúsið og borðað saman áður en vinna hefst. Kemur hver með sinn mat og grillar hann eða steikir á stórri Muurikki gaspönnu sem var lánuð frá Ísafirði til að nota við sjávarréttasmakkið á Bryggjuhátíðinni. Á henni má steikja fisk, kjöt eða hvaðeina sem fólki dettur í hug en þar sem æfingin skapar meistarann verður tekin æfing í kvöld.