22/12/2024

Undirbúningur Borðeyrarhátíðar

Skipulagning Borðeyrarhátíðar sem haldin verður síðustu helgi í júlí gengur vel. Áætlað er að senda út dagskrá og aðrar upplýsingar er varðar hátíðina til fyrrverandi nemenda barnaskólans á Borðeyri nú næstu daga og ætlast er til að þeir breiði síðan út boðskapinn til ættingja og vina og leiði þá á réttan áfangastað helgina 28.-30. júlí.

Dagskráin á hátíðinni verður hefðbundin ræðuhöld og söngur og um kvöldið verður sameiginleg grillveisla og dansleikur. Galdramaður af Ströndum verður með erindi og einnig verður boðið upp á leiðsögn um Borðeyri (sem veitir ekki af þar sem strætin eru mörg) og saga staðarins rakin af Georg Jónssyni á Kjörseyri. 

Ljósmynda- og handavinnusýning verður í barnaskólanum, þeim nýrri, og auglýsa aðstandendur eftir munum og myndum er tengjast barnaskólaárunum. Minnt er á að handavinnugripurinn er ekki síður verðmætur þó hann sé markeraður af áratuga notkun eða þá að litlar puttar hafi misst niður lykkjur eða nagli bognað.
Þeir sem hafa áhuga á aðstoða við sýninguna hafi samband við nefndarmenn og einnig má hringja í síma 698 3603.

Staðarhaldarar hjá Lækjargarði á Borðeyri hafa í mörgu að snúast þessa dagana, en þau munu bjóða uppá tjaldstæði og snyrtiaðstöðu og einnig taka þau stóran þátt í dagskránni, s.s. með sölu á grillmáltíð á laugardagskvöldið og dansleiknum um kvöldið.

Á Borðeyri er gistiheimili sem er í Tangahúsinu, en það er rekið af Ásdísi Guðmundsdóttur og Ingibjörgu Rósu Auðunsdóttur. Tangahúsið reis af rústum gamla kaupfélagsins sem var reist árið 1928 en það brann þremur árum síðar. Margir muna trúlega eftir rústunum sem voru til margra ára á eyrinni og árið 1951 var húsið endurreist og svo byggt við það 1978 og er húsið aftur orðið staðarprýði.

Borðeyri við Hrútafjörð – sögufrægur verslunarstaður