22/11/2024

Umsóknir í Æskulýðssjóð

Menntamálaráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Æskulýðssjóði. Styrkir úr þessum sjóði eru veittir tvisvar á ári og er næsti frestur til að skila inn umsóknum 10. febrúar 2005. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð fást í menntamálaráðuneytinu og á vef ráðuneytisins. Við mat á umsóknum er meðal annars tekið tillit til fjölda þeirra sem taka þátt í verkefnunum og til eigin fjármögnunar verkefna. Sérstakt tillit er tekið til minni félaga og félagasamtaka.

Meginhlutverk sjóðsins er að styrkja eftirtalin verkefni:

  • Sérstök verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra. Ekki eru veittir styrkir til árvissra eða fastra atburða í félagsstarfi, svo sem þinga, móta eða þess háttar atburða né ferða hópa.
  • Þjálfun æskulýðsleiðtoga og leiðbeinenda til virkrar þátttöku í æskulýðsstarfi, m.a. með námskeiðum og þátttöku í þeim.
  • Nýjungar og tilraunir í félagsstarfi barna og ungmenna.
  • Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka á sviði félagsstarfa.
Umsóknir sendist menntamálaráðuneytinu, Æskulýðssjóður, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.