22/11/2024

Umsagnir um samgönguáætlun

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða hefur nú sent frá sér umsagnir varðandi tillögu til þingsályktunar um Samgönguáætlun 2007-2010 og Samgönguáætlun 2007-2018. Þessar umsagnir, sem má kynna sér í heilu lagi hér að neðan, eru sendar til samgöngunefndar Alþingis. Ennfremur voru þessar umsagnir og viðhorf Vestfirðinga almennt til samgöngumála kynnt á fundi með samgöngunefnd Alþingis nú fyrr í vikunni.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010

Vegaáætlun

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga fyrir hönd Fjórðungssambandsins fagnar því að á áætlunartímabilinu verður hafist handa við verkefni og lokið við önnur verkefni sem áhersla hefur verið lögð á í samgönguáætlun Fjórðungssambandsins. 

Stefna vestfirskra sveitarstjórna kemur fram í stefnumótun í samgöngumálum sem samþykkt var á Fjórðungsþingi 1997 og endurskoðuð á árinu 2004 og samþykkt á Fjórðungsþingi sama ár, hafa þessar ályktanir verið kynntar Alþingi og ráðuneytum. Í stefnumótun hefur verið unnið með fjögur skilgreind samgöngusvæði þ.e. Ísafjarðarsýslu, Strandasýslu, Reykhólahrepp og Vestur-Barðastrandasýslu. Sett voru þrjú meginatriði fram í eftirfarandi tímaröð:

1. Vegagerð milli þéttbýlisstaða, flugvalla og ferjubryggja innan hvers samgöngusvæðis.
2. Tenging samgöngusvæða við þjóðvegakerfi landsins með uppbyggingu Vestfjarðavegar milli Flókalundar og Bjarkalundar og Djúpvegar í Ísafjarðardjúpi.
3. Tenging milli samgöngusvæða, með vegi um Arnkötludal og jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnafjarðar og jarðgöngum áfram undir Dynjandisheiði.

Staða framangreindra verkefna í lok áætlunartímabilsins samkvæmt samgönguáætlun 2007-2010 verður sem hér segir:

1. Ekki hefur verið lokið við framkvæmdir á vegi með bundnu slitlagi annarsvegar til Drangsness og hinsvegar vegi að flugvelli í Patreksfirði. 
2. Lokið verður framkvæmdum í Ísafjarðardjúpi með áætluðum verklokum 2010. Ólokið er framkvæmdum við Vestfjarðaveg annarsvegar, frá Vattarfirði og að Þingmannaá í Vatnsfirði og hinsvegar þverun Þorskafjarðar.
3. Lokið verður við gerð vegar um Arnkötludal, með verklokum 2008/2009. Hvorki framkvæmdir við jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar né jarðgöng um Dynjandisheiði eru hafnar.  

Óshlíðargöng koma inn sem nýtt verkefni miðað við samgönguáætlun Fjórðungssambandsins og eru áætluð verklok þar árið 2010. Er það í takt við sérstaka samþykkt 50. Fjórðungsþing Vestfirðinga árið 2005.

Fjórðungssamband Vestfirðinga leggur áherslu á að Alþingi tryggi fjármögnun þessara verkefna jafnt af samgönguáætlun og með fjármunum af sölu Símans eða með sérstökum fjárveitingum. Einnig verði sett fjármagn á áætlunartímabilinu til rannsókna og hönnunar á vegstæðum og jarðgöngum sem hér að framan greinir með það að markmiði að vinna við þau geti hafist á þessu áætlunartímabili og lokið á öðru tímabili langtímaáætlunar. Hér vill Fjórðungssambandið vísa til markmiða og áherslna Byggðaáætlunar 2006-2008 og tillagna í Vaxtarsamningi Vestfjarða. Nauðsyn er að hraða framkvæmdum við tengingu þjónustusvæða við byggðakjarna og er í raun, miðað við núverandi þróun byggðar og atvinnulífs lífsspursmál fyrir samgöngusvæðin og fyrir Ísafjörð sem landshlutakjarna fyrir Vestfirði. 

Flugmálaáætlun.

Fjórðungssamband Vestfirðinga gerir ekki athugasemdir við samgönguáætlun um uppbyggingu búnaðar og aðstöðu á áætlunarflugvöllum á Vestfjörðum. En mikilvægt er að tryggja öryggi í flugi og að ekki séu tæknilegar hindranir í að stunda áætlunarflug yfir vetrarmánuðina. Þetta er mikilvægur þáttur í uppbyggingu byggðakjarna á Ísafirði, vegna viðskipta, þjónustu, rannsókna og menntunar jafnt á framhaldsskóla- og háskólastigi. Fjórðungssambandið telur rétt að minna á að verulegir framtíðarmöguleikar eru fólgnir í ferðaþjónustu um Patreksfjarðarflugvöll og gerir að tillögu sinni að flugvöllurinn verði á ný færður inn í grunnnetið og rekstur hans hafinn að nýju.   

Siglingamálaáætlun

Samkvæmt mati Fjórðungssambands Vestfirðinga er samgönguáætlun 2007-2010 ásættanleg fyrir þennan málaflokk. Víða á Vestfjörðum eru fyrirhuguð stór viðhaldsverkefni hafna m.a. vegna endurnýjunar viðlegukanta. Mikilvægt er einnig það markmið samgönguáætlunar 2007-2010 að lokið er við stækkun hafnarinnar á Bíldudal vegna vinnslu kalkörunga úr setlögum í Arnarfirði.   

Samkeppnisstaða atvinnulífs.

Góðar samgöngur eru grundvöllur þess að atvinnulíf og byggð blómstri á Vestfjörðum. Þungaflutningar hafa flust af sjó upp á land án þess.að vegakerfið  á Vestfjörðum væri undir það búið. Samkeppnisstaða atvinnulífsins á Vestfjörðum hefur því skekkst til muna af þessum sökum. Fer þar saman að vegalengdir til útskipunarhafna eru langar og burðarþol vegakerfisins víða ekki viðunandi til að taka við þessum auknu flutningum. Er hér einn þeirra þátta sem geta skýrt neikvæða hagvaxtaþróun á svæðinu, samkvæmt nýrri skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Sjávarútvegsklasi innan Vaxtarsamnings Vestfjarða hefur unnið ítarlega með flutningsaðilum við að greina flutningskostnað og leiðir til að lækka hann. Niðurstaða klasans er að taka verði upp tímabundinn fjárstuðning til að koma á reglubundnum strandsiglingum. Um verði að ræða fjárstuðning til þriggja ára að upphæð 100 mkr fyrir hvert ár. Þetta fjármagn verði nýtt til að bjóða út strandsiglingar og til styrkingar flutningaþjónustu á landi. Fjórðungssamband Vestfirðinga styður þessa tillögu sjávarútvegsklasans.

Ísafirði 4. mars 2007
f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga

Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri

 

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018

Við gerð þessarar umsagnar er einnig vísað til umsagnar samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga fyrir hönd Fjórðungssambandsins um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010.  

Vegaáætlun
 
Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar því að á áætlunartímabilinu sér loks fyrir enda flestra þeirra verkefna sem áhersla var lögð á í samgönguáætlun Fjórðungssambandsins, auk nýrra verkefna sem hafa verið sett inn í áætlunina.

Stefna vestfirskra sveitarstjórna kemur fram í stefnumótun í samgöngumálum sem samþykkt var á Fjórðungsþingi 1997 og endurskoðuð á árinu 2004. Í þeirri stefnumótun er unnið með fjögur skilgreind samgöngusvæði þ.e. Ísafjarðarsýslu, Strandasýslu, Reykhólahrepp og Vestur-Barðastrandasýslu. Sett voru þrjú meginatriði fram í eftirfarandi tímaröð:

1. Vegagerð milli þéttbýlisstaða, flugvalla og ferjubryggja innan hvers samgöngusvæðis. 
2. Tenging samgöngusvæða við þjóðvegakerfi landsins með uppbyggingu Vestfjarðavegar milli Flókalundar og Bjarkalundar og Djúpvegar í Ísafjarðardjúpi.
3. Tenging milli samgöngusvæða, með vegi um Arnkötludal og jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnafjarðar og jarðgöngum áfram undir Dynjandisheiði.  

Staða framangreindra verkefna í lok áætlunartímabilsins samkvæmt samgönguáætlun 2007-2018 verður sem hér segir;

1. Lokið er við framkvæmdir á vegi með bundnu slitlagi til Drangsness fyrir 2014 en sést fyrir enda á framkvæmdum vegar að flugvelli í Patreksfirði. 
2. Lokið verður framkvæmdum í Ísafjarðardjúpi með áætluðu verklokum 2010. Ekki er ljóst hvort lokið er framkvæmdum við Vestfjarðaveg annarsvegar, frá Vattarfirði og að Þingmannaá í Vatnsfirði og hinsvegar þverun Þorskafjörðar.  
3. Lokið er gerð vegar um Arnkötludal, með verklokum 2008/2009. Lokið er framkvæmd við jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar árið 2014 en ekki er gert ráð fyrir áframhaldandi göngum um Dynjandisheiði. 
Óshlíðargöng koma inn sem nýtt verkefni miðað við samgönguáætlun Fjórðungssambandsins og eru áætluð verklok þar árið 2010. 

Fjórðungssamband Vestfirðinga telur að ekki sé hægt að una við að staða framkvæmda verði sem að framan greinir. Fjórðungssambandið vísar til áherslna Alþingis sem samþykktar eru í Byggðaáætlun 2006-2008;
   "a. Að landshlutakjarnar verði efldir en jafnframt hugað sérstaklega að leiðum til þess að treysta búsetu í þeim byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun.
    b. Að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum á atvinnuháttum.
    c. Að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni.
    Sérstök áhersla verði lögð á gildi menntunar og menningar, aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi, bættar samgöngur og fjarskipti og styrkingu landshlutakjarnanna Akureyrar, Ísafjarðar og Miðausturlands og annarra mikilvægra atvinnu- og þjónustumiðstöðva á landsbyggðinni.“

Einnig ber að vísa til niðurstöðu skýrslu verkefnisstjórnar um Byggðaáætlun 2006-2008 fyrir Vestfirði og gerð Vaxtarsamnings fyrir Vestfirði frá í febrúar 2005 þar sem segir:

"Vestfirðir eiga sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir. Þetta byggist á þeim styrkleikum og tækifærum sem fyrir hendi eru á svæðinu, sem og þeim áherslum og tillögum sem hér eru kynntar. Það er jafnframt mat og framtíðarsýn verkefnisstjórnar að fyrir árið 2020 verði íbúatala svæðisins um 8300 í fjölskylduvænu samfélagi sem verður eftirsótt vegna atvinnutækifæra, góðrar þjónustu, möguleika til menntunar og nýtingu frítíma, sembyggist á fjölbreyttu, framþróuðu, sérhæfðu og samkeppnishæfu atvinnulífi. Gert er ráð fyrir að íbúum
svæðisins fjölgi árlega að meðaltali um a.m.k. 40 eða 0,5%. Tillögur um aðgerðir skiptast í þrjá flokka :  1. Uppbygging byggðakjarna fyrir Vestfirði, 2. Tillögur um vaxtarsamning, 3. Aðrar tillögur."

Líta verður á framangreind markmið og aðgerðir sem sameiginlega niðurstöðu stjórnvalda annarsvegar og sveitarfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum hinsvegar, í að bregðast við neikvæðri þróun byggðar og atvinnulífs. 

Samgönguáætlun er ætlað að taka tillit til byggðaþróunar og samgöngumál eru lykilþáttur til að hafa áhrif hér á. Því er það lífsspursmál fyrir samgöngusvæði Vestfjarða og fyrir Ísafjörð sem landshlutakjarna, að hraða verði framkvæmdum við tengingu þjónustusvæða við byggðakjarna og tengingu við önnur svæði landsins.  Fjórðungssambandið leggur því þunga áherslu á að Alþingi tryggi fjármagn til verkefna samkvæmt áherslum sambandsins. Gerð er sú krafa að þessum verkefnum verði hraðað miðað við framlagða áætlum og lokið á næstu 4 til 6 árum eða í síðasta lagi árið 2012. Nýttir verði fjármunir jafnt af samgönguáætlun, af sölu Símans og sem sérstök fjárveiting. 

Ísafirði 4. mars 2007
f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga

Aðalsteinn Óskarsson
framkvæmdastjóri