22/11/2024

Umhverfisnámskeið í Strandabyggð

Á föstudaginn kemur, þann 25. apríl nk., á degi umhverfisins, verður haldið námskeið um umhverfisstarf í stofnunum og fyrirtækjum í Strandabyggð. Námskeiðið verður í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst kl. 13:00. Á námskeiðinu mun Ragnhildur Helga Jónsdóttir, umhverfisfræðingur í Borgarnesi, fara yfir ýmis handhæg ráð sem hægt er að nýta í daglegum rekstri stofnana og fyrirtækja, til að draga úr kostnaði og minnka umhverfisáhrif af rekstrinum. 

Þar verður reynt að svara spurningum eins og:

– Hvernig er hægt að breyta innkaupum til að gera þau umhverfisvænni?
– Er einhver einföld leið gegnum frumskóg umhverfismerkja?
– Þurfum við öll þessi tilbúnu efni sem við kaupum?
– Hvernig getum við gert þrif auðveldari, ódýrari og betri?
– Get ég minnkað eldsneytisnotkun bílsins?

Lögð er áhersla á umræður þannig að þátttakendur geti velt upp hvernig hægt sé að breyta og bæta í daglegum rekstri sinna stofnana og fyrirtækja á þessu sviði. Námskeiðið er ókeypis og öllum opið og er fólk hvatt til að mæta.