22/12/2024

Um útileguköttinn Krúsilíus

Krúsilíus kominn í leitirnar
Hjónin Svanhildur Guðmundsdóttir og Ólafur Ingólfsson eiga sumarbústað á Eyri í Ingólfsfirði og reyna að vera þar eins mikið og þau geta yfir sumartímann. Fyrir nokkrum árum eignuðust þau kisu sem þau nefndu Krúsilíus og tóku hann með sér næstu sumur í sæluna í Ingólfsfirði. Þremur sumrum síðar þá hljóp einhver skrattinn í köttinn og á meðan haldið var upp á stórafmæli Ólafs í Ingólfsfirði flúði kisi til nágranna þeirra, Péturs í Ófeigsfirði, og var þar í 7 vikur áður en hann náðist. Upp úr þessu gerðist Krúsilíus ódælli og engu líkara var en það hefði hlaupið einhver óáran oní hann. Þau hjónin tóku kisa með sér suður um haustið og bar lítið á sinnaskiptum hans þá um veturinn.

Sumarið eftir, árið 2002, þá koma þau hjónin aftur á sumarslóðir ásamt Krúsilíusi og þegar þau opnuðu fyrir honum bílhurðina þá ærðist hann og stökk tryllingslega undir bústaðinn og sást ekki meira það sumarið og var engu líkara en jörðin hefði gleypt hann með húð og hári. Hjónin sneru því til sinna heima án Krúsílíusar þá um haustið. Leið svo tíminn og ekkert sást né heyrðist til Krúsilíusar, utan einu sinni að það barst þeim til eyrna að tófuskytta sem lá á grenjum hefði orðið var einhvers kattarkvikindis, og var þar talinn vera Krúsilíus litli.

Sagði svo fátt af Krúsilíusi um árabil eða þar til síðasta vor að ungur piltur var að líta eftir minkum í Trékyllisvík og rak upp stór augu þegar hann rak augun í furðulegasta mink sem hann hafði séð og bar sá hálsband. Fannst piltinum það skrítin hegðan á einum minki og ályktaði sem svo að þarna hlyti að vera gráleit kattarforsmán á ferð. Ályktun piltsins barst til eyrna Guðmundar í Stóru Ávík sem mundi eftir sögu Krúsilíusar frá Eyri og setti sig í samband við eigendur hans og innti þau eftir því hvort veslingurinn hefði verið með hálsband og kom lýsing þess heim og saman við hálsband hins meinta minks.

Þegar hjónin Svanhildur og Ólafur komu til dvalar á Eyri í sumar þá hófu þau að reyna að lokka köttinn með mat, en þau trúðu að þarna væri Krúsilíus og stunduðu það sumarlangt að reyna að lokka hann til sín, en án árangurs. Krúsilíus lét ekki narra sig og náðist ekki með nokkru móti. Komu þau þá fyrir minkagildru en Krúsilíus er slóttugur köttur og sneri því ævinlega á þau hjónin og velvildarmenn sína. Að endingu þegar líða tók að hausti og hjónin voru að undirbúa sig fyrir suðurferð þá komu þau fyrir stærri gildru og báðu þau Guðmund í Stóru Ávík að líta eftir henni fyrir sig og hurfu svo suður yfir heiðar.

 
Nokkrum dögum síðar þá hringir síminn hjá þeim og á línunni hinum megin var Guðmundur og segir: "Það er köttur í gildrunni." Hjónin brunuðu samdægurs norður á Strandir til endurfunda við Krúsilíus, sem var ennþá í gildrunni og hafði hvæsti látlaust og illilega að Guðmundi í hvert sinn sem hann nálgaðist.  Þegar hjónin réttu að honum fingurinn þá hnusaði Krúsilíus að honum og sleikti síðan, þeim til mikillar gleði. Fóru þau hjónin þá glöð í bragði með Krúsilíus í gildrunni að Eyri aftur og hleyptu honum þar út og gáfu honum veislubita áður en þau héldu með hann suður.
 
Síðan hefur Krúsilíus legið rólegur heima við og malar makindalega eftir ríflega þriggja ára útilegu og ævintýri á Ströndum og iljar sér við minningarnar.