Dagana 1.- 5. mars síðastliðinn héldu Leitarhundar Slysavarnafélagsins Landsbjargar vetrarnámskeið sitt á Ólafsfirði. Alls tóku 27 hundateymi víðsvegar að af landinu þátt í námskeiðinu og þar af eitt frá Hólmavík. Æft var á Lágheiði frá morgni og framundir kvöld, en á kvöldin voru haldnir fyrirlestrar. Auk hundateymanna, dómara og leiðbeinendanema var og fjöldinn allur af aðstoðarfólki frá Ólafsfirði, Siglufirði, Akureyri og Neskaupstað. Frá Hólmavík tóku þau Úlfar H. Pálsson og labradortíkin Kolka A endurmat en það er úttekt á því hvort teymið sé fullhæft í útkall.
Rétt átta ár eru síðan þau byrjuðu í leitarhundum, tóku þá C gráðu í snjóflóðaleit og æfðu líka víðavangsleit. Á tímabili voru þau með A gráðu bæði í víðavangs- og snjóflóðaleit. Þess má geta að þetta snjóflóða-hundateymi er það eina á útkallsskrá frá Ísafjarðarsvæðinu og allt til Sauðárkróks.
Frá þessu er sagt á www.123.is/dagrenning.