22/12/2024

TOS ungmennaskipti á næsta súpufundi

Næstkomandi fimmtudag verða TOS ungmennaskipti kynnt á vikulegum súpufundi Þróunarsetursins og Arnkötlu 2008 í hádeginu á Café Riis. TOS ungmennaskipti verða nokkuð áberandi á Ströndum í næsta mánuði en þá munu um 30 ungmenni frá 10 löndum dvelja á Hólmavík í eina viku, kynna sér atvinnulíf og menningu á Ströndum og taka þátt í námskeiðum sem heimamenn leiða. TOS ungmennaskipti hafa tekið þátt í nokkrum ungmennaskiptum erlendis og sent íslenska sjálfboðaliða til að vinna með öðrum svipuðum samtökum.

TOS er aðili að neti ungmennaskiptasamtaka INFACCT sem leggur áherslu á að nota ýmisskonar listsköpun til að auka félagsfærni og örva fólk til virkrar aðildar að samfélagi, koma á fjölmenningarlegum samskiptum og efla gagnrýna hugsun. TOS er rekið af systrunum Ástu og Hólmfríði Þórisdætrum.

Eins og venjan er orðin þá verður fundurinn sendur út í beinni útsendingu með netfundabúnaði sem allir sem áhuga hafa geta tengst við, úr þeirri tölvu sem þeir sitja við þá stundina.

Það eiga allir sem hafa einhversskonar háhraðanetstengingu og með Windows umhverfi að geta tengt sig inn á fundinn og fylgst með með hljóði og mynd ásamt því sem allar glærur koma upp á skjáinn. Einnig verður hægt að leggja fram fyrirspurnir í gegnum spjallborð í kerfinu sem verða síðan bornar fram eftir kynninguna.

Til að tengjast er best að smella á eftirfarandi hlekk að neðan kl. 12:00 á fundardegi. Þar er að finna leiðbeiningar um hvernig sé best að tengjast og einnig hægt að tengjast beint af þeirri síðu.
http://www.strandir.saudfjarsetur.is/supufundir

Athugið að það er best að nota heyrnartól.