22/12/2024

Tónlist á Leikskólanum Lækjarbrekku

Tónlist er ríkur þáttur í menningu leikskólans Lækjarbrekku á Hólmavík. Börnin öðlast tónlistarþroska með því að fá fjölbreytta reynslu af tónlist og fá að kynnast hljóðum, tónum og hreyfingu í leik og starfi. Það hvetur börnin til að fást við og njóta tónlistar á ýmsan hátt, þar sem meðal annars er mikið lagt  upp úr sjálfsprottnum söng barnanna. Tónlistin tengist á margan hátt inn í skipulagt starf skólans og er samstarf við Tónskólann á Hólmavík mikilvægur hlekkur í því starfi.

Tónskólinn á Hólmavík hefur komið að þessu í hartnær þrjú ár, en það er Bjarni Ómar Haraldsson tónlistarkennari sem haldið hefur utan um starfið frá upphafi. Starfið hefur þróast frá því að fela í sér eingöngu hefðbundnar söngstundir yfir í markvisst starf með tveimur aldursskiptum hópum þar sem lögð er áhersla á það helsta sem tónlist tilheyrir.
 
Í hópstarfinu sem fram fer einu sinni í viku er áherslan lögð á fjölbreytt viðfangsefni og farið er með texta, tónlist og myndefni sem tengjast þemanu hverju sinni. Einnig er unnið markvisst með hlustun og ýmis grunnhugtök. M.a. hafa börnin fengið kynningu á hljóðfærum með vettvangsheimsókn í Tónskólann. Inn í þetta allt blandast svo heimspekilegar vangaveltur um lífið og tilveruna sem er ómissandi þáttur þegar tónlist er annars vegar.
 
Það nýjasta í þessu samstarfi er að nú gefst nemendum Tónskólans sem komnir eru nokkuð áleiðis í tónlistarnáminu tækifæri til að koma í leikskólann ásamt Bjarna Ómari og leika undir við söng barnanna. Það var Bjarki Einarsson gítarnemi sem reið á vaðið á miðvikudaginn og var honum gríðarlega vel tekið af starfsmönnum og börnunum sem skemmtu sér hið besta yfir gestakomunni og kunnu vel að meta þetta innlegg í starfið á Lækjarbrekku. 

Bjarki og Bjarni Ómar ásamt starfsfólki og börnum á Lækjarbrekku