22/12/2024

Tilraun gerð til innbrots í Gjögurvita

Á fréttasíðunni litlihjalli.it.is í Árneshreppi kemur fram að þegar vitavörðurinn Jón G. Guðjónsson fór í vettvangsferð í Gjögurvita í gærmorgun og að koma fyrir skilti um að bannað væri að fara upp stigann í vitanum, sá hann að reynt hafði verið að brjóta upp lásinn að skúrnum þar sem allur stjórnbúnaður vitans er. Hefur verið átt við lásinn og eins og sést á meðfylgjandi mynd þá er hann kengboginn og líklegt að eitthvert járn hefur verið notað til verksins en ekki var að sjá að nokkuð hafi verið átt við búnaðinn inni í skúrnum né í ljósahúsinu efst í vitanum.

Að sögn Jóns þá er ekkert geymt þarna innandyra sem nýtist öðrum en Siglingastofnun. "Menn hafa vonað að vera lausir við svona lið og skemmdarvarga hér við nyrsta haf" segir Jón G. Guðjónsson vitavörður.