22/12/2024

Tilkynning frá hljómsveitinni Napoleon

Aðsend grein: Bergvin Oddsson, umboðsmaður Napoleon
Hljómsveitin NapóleonÁgætu Hólmvíkingar. Eftir að undirritaður las vef Strandamanna, www.strandir.saudfjarsetur.is, gat ég ekki komist fram hjá því að rita nokkur orð um slæm vinnubrögð lögreglustjóra Vestfjarða, ásamt staðgengli lögregluvarðstjórans á Patreksfirði, en þeir sáu sér ekki fært að sveigja reglugerð um skemmtanaleyfi vegna dansleiks hljómsveitarinnar Napoleon, sem átti að fara fram föstudaginn 27. júlí sl.

Reglugerð þessi var sett fram þann 1. júlí sl. og kveður á um að aðeins sé hægt að sækja um skemmtanaleyfi með ekki skemur en 7 daga fyrirvara.

Þegar dansleikjahaldarar á Patreksfirði ætluðu að sækja um skemmtanaleyfið, skýrði lögregluvarðstjórinn á Patreksfirði út að ekki væri hægt að fá skemmtanaleyfi sökum nýrra reglugerða. Önnur ástæða sem hann skýrði frá var sú að búið væri að manna lögregluvaktir í Vesturbyggð og ekki væri hægt að breyta vaktaplani.

Dansleikjahaldarar á Patrekfirði sóttu um skemmtanaleyfið með þriggja daga fyrirvara. Eftir að dansleikjahaldarar ásamt undirituðum reyndu ítrekað að fá undanþágu vegna nýrra reglugerða um tilfallandi skemmtanaleyfi, án árangurs, sá undiritaður ekki ástæðu til að fara með hljómsveit sína á Hólmavík, sökum þess að enginn trygging var fyrir hendi á skemmtistaðnum Café Rís.

Með fullri virðingu fyrir íbúum Hólmavíkur, væntir undiritaður þess að menn taki tillit til hljómsveitarinnar um að leggja á sig langt ferðalag og hafa enga vitneskju um mætingu á dansleikinn á Hólmavík. Vissulega var þetta leiðindaatvik, að hafa sett allt úr skorðum hjá staðarhaldara Cafe Rís, Báru Karlsdóttur og hefur undiritaður hugsað sér að reyna aftur að standa fyrir dansleik á Hólmavík bráðlega, þar sem lofað verður dúndur dansleik.

Að lokum vill undiritaður ítreka að hann telur alla ábyrgðina liggja á lögregluyfirvöldum á Vestfjörðum, þ.e.a.s. lögregluvarðstjóranum á Patreksfirði ásamt staðgengli lögreglustjóra Vestfjarða.

Virðingarfyllst,
Bergvin Oddsson,
umboðsmaður hljómsveitarinnar Napoleon

Ath.semd ritstjóra strandir.saudfjarsetur.is: Eftirtaldar fréttir á strandir.saudfjarsetur.is tengjast þessu máli:
Heilmikið um að vera um helgina
Balli aflýst á Café Riis
Diskótek á Riis í kvöld
Hlaðborð og dansleikur á Café Riis á laugardagskvöld