22/12/2024

Tilhlökkun fyrir skákhátíð í Árneshreppi

"Árneshreppur er einstök sveit og ég hlakka mikið til að koma þangað aftur, hitta fólkið í Bæ og aðra vini mína í sveitinni," segir Jóhann Hjartarson stórmeistari sem er meðal keppenda á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík. Mótið fer fram í Djúpavík nk. laugardag, 20. júní. Þriggja daga skákhátíð fer í hönd í Árneshreppi og hefur fjöldi skákáhugamanna boðað komu sína. Gestir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, enda síðustu forvöð að tryggja sér gistingu!

Skákhátíðin hefst á föstudaginn klukkan 20 með setningarathöfn í Djúpavík, að viðstöddum Kristjáni Möller samgönguráðherra, sem er heiðursgestur hátíðarinnar. Að lokinni setningarathöfn hefst tvískákmót. Tveir tefla saman í liði og má búast við skemmtilegum ævintýrum á skákborðinu.

Klukkan 12 á laugardag hefst Minningarmót Guðmundar Jónssonar og verður teflt í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Það er kyngimagnaður mótsstaður, einsog keppendur fengu að kynnast á síðasta ári. Á sunnudag klukkan 13 verður svo hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði og þar lýkur hátíðinni.

Stöðugt bætist við verðlaun í mótið. Sigurvegari mótsins fær skúlptúr eftir Guðjón Kristinsson frá Dröngum, en af öðrum vinningum má nefna listaverk eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi, siglingu fyrir tvo á Hornstrandir, gistingu á Hótel Djúpavík, Bergistanga og gistiheimili Norðurfjarðar, handverk eftir Selmu á Steinstúni, Margréti í Norðurfirði og silfurhálsmen eftir Jóhönnu í Árnesi. Þá mun heppinn keppandi hreppa lambalæri frá Melum, en þar er eitt frægasta sauðfjárbú landsins.

Og þetta er ekki allt og sumt. Vinningar eru einnig frá Forlaginu, 66° Norður, bókaforlaginu Skugga, Henson og Kaupfélagi Steinsgrímsfjarðar — að ógleymdum 100 þúsund króna verðlaunapotti!

Þátttakendur sem eiga eftir að skrá sig eru hvattir til að gera það sem allra fyrst. Hótelið í Djúpavík er að verða uppbókað, og sama máli gegnir um gististaðina í Norðurfirði, en nóg pláss er enn í svefnpokagistingu í húsi Ferðafélags Íslands í Norðurfirði. Til að fá gistingu þar er mönnum bent á að hafa samband við Laugu í Norðurfirði í síma 4514017 — sem fyrst! Nóg pláss er á tjaldstæðum. Gisting er í boði á eftirtöldum öðrum stöðum:

Hótel Djúpavík, sími 451 4037 Gistihúsið Norðurfirði, sími 554 4089 Gistihúsið Bergistangi Norðurfirði, sími 451 4003 og Finnbogastaðaskóli (tjaldstæði), sími 451 4012.

Nánari upplýsingar veita Róbert Harðarson (sími 696 9658, chesslion@hotmail.com), Hrafn Jökulsson (sími 4514026, hrafnjokuls@hotmail.com).