22/12/2024

Tilboð opnuð í bætt GSM-samband

Í  morgun voru opnuð tilboð í verkefni sem snýst um að þétta GSM-farsímanetið á þjóðvegi 1 og sex öðrum stöðum á landinu. Þar á meðal er Steingrímsfjarðarheiði, en ekki aðrir vegir eða leiðir á Ströndum. Þrjú tilboð bárust og eru þau öll töluvert yfir áætlun sem hljóðaði upp á tæpar 446 milljónir. Síminn hf átti lægsta boð upp á 598 milljónir og einnig 535 milljóna frávikstilboð, en Og fjarskipti hf buðu 669 milljónir. Verktími hjá Og fjarskiptum var áætlaður 20 mánuðir, en 12 mánuðir hjá Símanum.

Í þessum áfanga var boðin út uppsetning á GSM-sambandi á vegarköflum á hringvegi 1 og einnig fimm fjallvegum – Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjallsveg, Fagradal og Fjarðarheiði. Einnig á að setja upp sendi í Flatey á Breiðafirði sem nær til helmings af leiðinni um Barðaströnd. Alls eru þessir vegarkaflar um 500 km langir.