Grein eftir Guðbrand Benediktsson
Þegar ég horfði á það í sjónvarpinu að verið var að mylja niður Hilmi ST 1 var það sama tilfinning og þegar maður hugsar til kvótakerfisins og framkvæmd þess, þar sem dreifbýlið hefur verið mulið niður undanfarna áratugi mélinu smærra af stjórnvöldum. En íbúarnir kyssa alltaf á kosningavöndinn, þrátt fyrir að brotið sé á sameiginlegum eignarétti landsmanna. Enn fær fólk tækifæri til að kyssa vöndinn, núna er það frjálshyggjuvöndurinn.
Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá skipsrúm á Hilmi ST 1 1961-1962. Ekki vissi ég það þá að við ættum sama afmælisdag í Steingrímsfirði, 03.06.1944, á sjómannadaginn.
Hilmir var einstök happafleyta og afburða sjóskip. Áhöfn og landmenn sem ég kynntist voru alveg frábærir. Til útskýringar voru landmenn þeir sem beittu í landi, en Hilmir stundaði línuveiðar í Húnaflóa um haustið og veturinn 1961-62 þegar ég var háseti á honum. Um vorið var síðan farið á net á Steingrímsfirðinum og um sumarið veiddum við smásíld á Steingrímsfirði í samkeppni við Einar Hansen. Sú frásögn bíður betri tíma.
Skipstjóri á Hilmi var Guðmundur Guðmundsson, Mummi eins og allir þekktu hann, einstaklega góður drengur og hvers manns hugljúfi. Urðum við góðir vinir alla tíð eftir þessi kynni. Magnús Ingimundarson var stýrimaður, alveg sérstaklega flinkur, sjómaður af guðs náð og mikil heppni að fá hann sem leiðbeinanda. Gústaf Guðmundsson var vélstjóri. Landmenn voru Hrólfur Guðmundsson, Jónas Ragnarsson, Þorsteinn Guðbjörnsson og Hrólfur Guðjónsson frá Heiðarbæ.
Á þessum árum voru siglingatæki mjög takmörkuð, eingöngu var stuðst við áttavita, dýptarmæli og klukkuna. Þegar sást til lands í björtu voru tekin tvö mið sem næst 90 gráðum, til að fá sem besta staðsetningu. Það var sem sagt ekki Radar eða Loran og því síður GPS. Seinna skildi maður að skipstjórar og sjómenn á þessum árum í Húnaflóanum voru nánast með innbyggt GPS í kollinum. Mummi var einstakur hvað þetta varðaði, vissi alltaf hvar báturinn var staðsettur og alltaf vissi hann hvað djúpt var ef hann sá til lands. Alltaf kíkti hann á klukkuna með ákveðinni handahreyfingu og skyrtan strokin aðeins upp. Hann virtist alltaf vita hver ganghraði bátsins var, strikið alltaf á hreinu og dýptarmælirinn í bakhöndinni. Aldrei skeikaði neinu, en einnig þurfti að reikna með straumum og vindi sem gat borið bátinn af leið. Klukkan og áttavitinn voru upplýsingarnar sem hann studdist við og reiknaði út frá, í sitt innbyggða GPS staðsetningatæki í kollinum sem aldrei brást.
Fyrsta baujuvaktin sem ég stóð gleymist aldrei, ég fékk sem sagt það hlutverk að standa baujuna, frekar stressaður í fyrsta sinn, á meðan hinir sváfu 2-3 tíma áður en farið var að draga línuna. Trúlega var byrjað að leggja línuna í Birgisvíkurpollinum og krusað eitthvað norður og endað út af Reykjaneshyrnunni. Að leggja línuna gat verið sóðalegt þegar beitan var ófrosinn og innyflin úr síldinni slettust framan í mann, þá var oft stutt í sjóveikina. Endabaujan á línunni var ljósbauja og manni bar að passa hana þar til ,,ræst var“ til að draga línuna. Látið var reka 10-15 mín, eftir reki bátsins og fylgst með rekinu og ljósinu og keyrt svo að baujunni og látið reka að nýju. Eiginlega gat maður ekkert annað gert en að „syngja“ á baujuvaktinni með lokaða glugga þannig að ekki heyrðist fram í lúkar þar sem karlarnir sváfu.
Undir lok baujunnar, en þá var ég búinn að keyra nokkrum sinnum að ljósinu, er ég að dóla að ljósinu. Þar sem Mummi var búin að kenna mér að nota klukku og áttavita skynjaði ég að ég átti að vera kominn að ljósinu, en var samt að keyra með stefnuna á ljós sem ég sá framundan. Tíminn passaði ekki og ég stoppaði Hilmi og ræsti Mumma sem kom hið snarasta upp, án þess að fá sér kaffi. ,,Nú nú, ég skil þetta ekki,“ sagði hann og spurði mig um strik og tíma. Maggi og Gústaf voru komnir upp og þótti ekki gott í efni, baujan týnd hjá stráknum. Mummi dólaði af stað út í myrkrið á strikinu og við stóðum á útkikki með kveikt á kastaranum, án þess að sjá baujuna því slokknað hafði á henni. Og viti menn, þá skrönglaðist hún meðfram borðstokknum stjórnborðsmegin, þannig að við náðum henni með krókstjaka og fórum að draga línuna sem ekkert væri. Þetta var dæmigerður Mummi á Hilmir ST 1 upp á punkt og strik.
Það var nú vissara að vanda sig við að hringa niður línuna svo landmennirnir yrðu ekki trompaðir yfir þessum „flækjudrætti“. Þeir vildu helst að dregið væri af eins og í stokk og þá reyndist Maggi Ingimundar vel í fyrstu tilsögn, láta taum og krók snúast ofan af línunni á þeim 2 metrum frá línuspilinu að bala. Helst átti krókurinn að krækjast í eigin hring um leið og línan féll niður í balann. Þetta tókst ekki alltaf, en mikið var reynt til að þóknast beitningamönnunum.
Þrettándi róðurinn var svolítið vandamál eftir áramótin og byggðist á gamalli hjátrú eða einhverju sem hafði gerst á árum áður á Hilmi og tengdist 13. róðrinum, sem ég kann ekki að greina frá. Við snerum við utan við Grímsey tvisvar, í 3ja sinn lögðum við línuna inni á Steingrímsfirði og var aflinn lítill í það sinn.
Þótt Hilmir væri frábært sjóskip munaði einu sinni litlu að verr færi, Við vorum að enda við að draga línuna út af Reykjarfirði. Það hafði verið norðan undiralda og gott í sjóinn, svo fer hann að kalda af suðvestan. Á móti öldunni þá myndaðist kröpp bára, slæmt sjólag, í byrjun landstíms. Við vorum að ganga frá á dekkinu og vissum ekki fyrr til en Hilmir var lunningafullur af sjó. Mummi hefur þá trúlega ekki slegið af (verið í talstöðinni?) og Hilmir stakk sér í krappa öldu. Við á dekkinu vorum á sitt hvorum staðnum. Ég stóð fyrir aftan línuspilið sem betur fer, því allir balarnir, sem voru frammá hvalbak komu aftur á dekk. Maggi var miðskips, en öll tindabikkjan flaut um og lokaði fyrir útrennsli af dekkinu. Maggi var snöggur að átta sig á því og opnaði lensiportin og Hilmir þurrkaði sig og náði sjóhæfni að nýju. Gústaf var aftur á að ganga frá og slapp vel.
Ekki verður hætt með þessar minningar öðruvísi en að minnast á talstöðvar hæfileika Mumma. Orðaforðinn, stellingarnar og taktarnir voru tær snilld og verður ekki leikið eftir. Það verður því aðeins góð minning um góðan dreng.
Guðbrandur Benediktsson, háseti á Hilmi