22/12/2024

Til hamingju Strandagaldur – til hamingju Strandamenn

Aðsend grein: Herdís Á. Sæmundardóttir
Miðvikudaginn 21. febrúar s.l. var Eyrarrósin veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Listahátíðar og Flugfélags Íslands sem verðlaunar sérstaklega eitt menningarverkefni á landsbyggðinni sem þykir hafa skarað framúr. Þetta er í þriðja sinn sem Eyrarrósin er veitt og að þessu sinni var Strandagaldur valinn úr fjölda góðra umsókna sem bárust verkefnisstjórn. Verðlaunin nema 1.5 milljón króna, ásamt verðlaunagrip sem unninn er af listakonunni Steinunni Þórarinsdóttur og flugmiðum innanlands. Við þetta tækifæri var jafnframt nýr samningur um framhald Eyrarrósarinnar til tveggja ára undirritaður. Eyrarrósin á rætur sínar í því að árið 2004 gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðarstofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni til þriggja ára í tilraunaskyni. Óhætt er að segja að afar vel hafi til tekist og að þessi verðlaun hafi reynst lyftistöng fyrir þau verkefni sem valin hafa verið.

Markmiðið með Eyrarrósinni er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Það sem einkum þótti gera Strandagaldur verðlauna verðan var að verkefnið byggir á sérstöðu svæðisins og dregur svo einstaklega vel fram íslenska þjóðtrú og sögu. Jafnframt er í umsögn verkefnisstjórnar lögð áhersla á þá fagþekkingu og þann metnað sem einkennir verkefnið sem og ríka þátttöku heimafólks í því.

Aðkoma Byggðastofnunar að Eyrarrósinni helgast m.a. af þeirri sýn að menningarmál séu byggða- og atvinnumál. Þegar vel er að verki staðið og vel tekst til geta verkefni eins og Strandagaldur verið atvinnuskapandi og skapað svæðinu sterka ímynd sem hefur aðdráttarafl bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Áhrifin af velgengni verkefnisins felast einnig í aukinni þjónustu sem skapast í kring um það. Það er mér sérstakt ánægjuefni að Strandagaldur skyldi verða fyrir valinu í þetta sinn. Það gefur aukin færi á að sækja fram og styrkja innviði samfélagsins enn frekar í þeirri viðleitni að treysta byggð og efla atvinnu- og menningarlíf svæðisins. Strandagaldur er afar vel að þessum verðlaunum kominn og það er ósk mín að þau megi verða til heilla fyrir verkefnið sjálft sem og svæðið í heild.

Herdís Á. Sæmundardóttir,
formaður stjórnar Byggðastofnunar.