30/10/2024

Þróun launagreiðslna milli sveitarfélaga

Hagdeild Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman yfirlit um þróun launagreiðslna eftir sveitarfélögum fyrstu sex mánuði ársins 2005 samanborið við launagreiðslur sömu mánuði á síðasta ári. Fram kemur að verulegur munur er milli landshluta hve heildarlaunagreiðslur hafa hækkað mikið milli ára. Í sveitarfélögum á Vestfjarðakjálkanum og á Norðurlandi vestra hækka heildarlaunagreiðslur áberandi minnst milli ára eða milli 4 og 5%. Í sveitarfélögunum fimm á Ströndum hækka launagreiðslur að meðaltali um 7,69% milli ára, en samanburð milli allra sveitarfélaga á Ströndum er að sjá í töflu hér að neðan.

Sveitarfélag % aukning launagreiðslna  á Ströndum milli ára
Bæjarhreppur 15,16%
Broddaneshreppur   0,29%
Hólmavíkurhreppur   8,43%
Kaldrananeshreppur   1,58%
Árneshreppur 11,46%
Sveitarfélög á Ströndum   7,69%

Austurland sker sig eðlilega töluvert úr sem helgast af hinum miklu virkjana- og stóriðjuframkvæmdum þar eystra. Höfuðborgarsvæðið án Reykjavíkur kemur þar næst með rúmlega 12% hækkun launagreiðslna milli ára. Reykjavík, Suðurnes, Vesturland, Norðurland eystra og Suðurland liggja þar næst með áþekka hækkun launagreiðslna eða frá tæpum 8% upp í tæplega 9,5%.