22/12/2024

Þróun fasteignaverðs

Aðsend grein: Jón Fanndal, Ísafirði
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir sem jafnframt er byggðamálaráðherra hefur látið gera skýrslu um þróun fasteignaverðs á Íslandi sem nær yfir tímabilið frá 1990–2004. Skýrsla þessi var birt 13. desember 2005. Þessi skýrsla er kolsvört hvað varðar Vestfirði en kemur okkur samt ekkert á óvart þar sem við höfum þessa þróun áþreifanlega fyrir okkur. En að byggðamálaráðherrann skyldi láta hafa það eftir sér í fjölmiðlum að þetta væri jákvæð þróun og sýndi hvað vel byggðastefna ríkistjórnarinnar virkaði. Þetta blöskraði mér og varð til þess að ég læt í mér heyra. Er það byggðastefna ríkisstjórnarinnar að leggja Vestfirði í eyði? Það mætti ætla það af orðum ráðherranns.

Hér koma tölurnar um þróun fasteignaverðs á tímabilinu:

Vesturland                  hækkun    63%
Höfuðborgarsvæðið     hækkun   52%
Suðurnes                    hækkun   47%
Suðurland                  hækkun    44%
Norð-Austurland        hækkun    30%
Austurland                 hækkun    24%
Norð-Vesturland        hækkun      1%
VESTFIRÐIR          LÆKKUN  28%

Eins og flestir vita nær hið nýja Norðvesturkjördæmi frá Skagafirði í Hvalfjarðarbotn. Athyglisverður er sá mismunur sem er á þróun fasteignaverðs innan sama kjördæmis. Vesturland trónir hæst á listanum með 63% í plús á meðan Vestfirðir liggja marflatir á botninum með 28% í mínus og Norðurland-vestra rúllar á núllpunktinum.

Það hljóta að hafa verið annarlegar hvatir eða hrein vitleysa sem réð því að kjördæmum með jafn ólíkan grunn og vaxtarmöguleika var slengt saman í eitt og það hlýtur að valda þingmönnum kjördæmisins hugarangri að vinna í slíku kjördæmi þar sem þarfirnar eru svona misjafnar. Fyrrverandi þingmaður úr Sjálfstæðisflokknum sagði að núverandi kjördæmaskipan væri „arfavitlaus“. Sennilega hafði hann rétt fyrir sér.

Ég vil varpa fram þeirri spurningu hvort Vestfirðir, sem státa af fornri frægð og tekjur á mann voru hæstar á öllu landinu, séu orðnir þannig útnári sem vart er byggilegur og Norðurland-vestra sömuleiðis. Fyrir mína hönd vil ég svara því neitandi. Þessi tvö fyrrum kjördæmi eru ekki síður byggileg nú en þau hafa ávallt verið. Það er af mannavöldum sem þessi óþolandi þróun hefur orðið. Þessi kjördæmi hafa einfaldlega verið lögð í einelti af stjórnvöldum með lagasetningum sem virka jákvætt fyrir sum kjördæmi en neikvætt fyrir önnur og þá sérstaklega Vestfirði. Var þetta ef til vill gert með ráðnum hug? Ég vil helst ekki trúa því. Valgerður segir samt að byggðastefna ríkisstjórnarinnar virki eins og til var ætlast.

Valgerðarþáttur

Ef við spólum til baka þó ekki væri nema um nokkur ár, minnumst við þess að Valgerður Sverrisdóttir byggðamálaráðherra gerði byggðaáætlun og í henni stóð að byggja skyldi nýjan höfuðstað fyrir landsbyggðina. Sú nýja höfuðborg skyldi heita Akureyri, enda í hennar kjördæmi. Valgerður ætlaði að feta í fótspor mikilmenna sögunnar, þeirra Péturs mikla sem byggði Pétursborg í Rússlandi og Alexanders mikla sem lét byggja Alexandríu í Eygptalandi. Ef Valgerði tekst áform sitt að byggja borg, fær hún eflaust titilinn Valgerður hin mikla eins og hin mikilmennin.

Þega ég frétti af þessum áformum ráðherrans varð mér að orði sem landsbyggðamanni: „Má ég þá heldur biðja um gömlu góðu Reykjavík.“ Þessi hugmynd hennar var algerlega fráleit frá hvaða sjónarhóli sem var og ætla ég ekki að eyða bleki í að rökstyðja það.

Í byggðaskýrslu ráðherrans var hvergi minnst á Ísafjörð og ekki einu sinni Egilsstaði sem byggðakjarna. Þetta líkaði sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum illa sem von var og risu upp á afturlappirnar, aldrei þessu vant, mótmæltu og gerðu sína eigin „metnaðarfullu“ byggðaáætlun. Af þessu var mikið gasprað í fjölmiðlum. Skýrslan var góð, og allt sem í henni stóð átti að framkvæma á 10 ára tímabili. Kostnaðurinn við framkvæmd skýrslunnar hefði eflaust hlaupið á hundruðum milljarða.

En það var einn galli á gjöf Njarðar, það vantaði peninga til framkvæmdanna. Valgerður svaraði þessari gagnrýni með því að lofa byggðakjörnum á Ísafirði og Egilstöðum. Þetta þótti skýrsluhöfundum mikill sigur, því nú var Ísafjörður orðinn löglegur byggðakjarni. En aftur var galli á gjöf Njarðar, það var ekki gert ráð fyrir neinum peningum til að gera Ísafjörð að byggðakjarna. Valgerður kom að vísu vestur í einkaflugvél með 10 milljónir upp á vasann, það var skálað í froðuvíni og ráðherrann hylltur fyrir örlæti sitt. (Var ekki hægt að millifæra peningana?)

Vaxtarsamningurinn

Það er til eitthvað fyrirbæri sem nefnt hefur verið vaxtarsamningur. Það hefur engin getað sagt mér hvað það er, annað en að okkar vaxtarsamningur mun vera  afkvæmi „metnaðarfullu“ byggðaáætlunarinnar sem gerð var um árið og aldrei var framkvæmd. Valgerður kom vestur til að skrifa undir samninginn en nú var hún peningalaus. Aftur var skálað í froðuvíni og frúnni veitt lotning.

Það er von mín að eitthvað jákvætt og áþreifanlegt komi út úr þessum vaxtarsamning en ef ekki, þá væri reynandi að hætta að skála í froðuvíni en skála í þess stað í íslensku brennivíni. Það gæti virkað.

Að lokum. Er ekki kominn tími til að láta verkin tala. Leggjumst nú allir á eitt, alþingismenn, sveitarstjórnarmenn og aðrir velunnarar Vestfjarða og Norðurlands-vestra og snúum þessari óheillaþróun við og hættum að japla á þessari leiðinlegu dúsu sem alltaf er verið að stinga upp í okkur eins og vælandi krakka, til að fá okkur til að þegja.

Jón Fanndal