22/11/2024

Þrettándagleði á Hólmavík

Þrettándagleði verður haldin í og við garðinn við Galdrasafnið á morgun en
samkvæmt upplýsingum sem tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is hefur aflað sér hefur ekki verið haldið
sérstaklega upp á Þrettándann á Hólmavík svo lengi sem elstu menn mun, að undanskilinni árlegri flugeldasýningu björgunarsveitarinnar. Það eru
allir hvattir til að mæta og taka þátt og þeir sem hafa aðgang að álfa, prinsa, prinsessu eða trölla og jólasveinabúningum gefst tækifæri á að klæðast þeim og hjálpa til við að skapa stemmningu.
Samkvæmt þjóðtrúnni eru jólin dönsuð út á Þrettándanum og um nóttina spretta
fram ótal hulduverur, álfar  og tröll. Þrettándagleðin hefst klukkan 19:00 og
verður um klukkustundardagskrá, þar sem framin verður tónlist og fjallað um
hulduvættar Þrettándans.

Á Þrettándagleðinni gefst öllum tækifæri á að minnka við jólasmákökulagerinn á heimilinu og gefa öðrum að smakka, en boðið verður upp á heitt súkkulaði á staðnum. Stebbi Jóns mun mæta með nikkuna og spila þrettándalög undir söngi. Hægt er að sækja textablað og prenta þau út með því að smella hér. Þrettándagleðinni lýkur með flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Dagrenningar kl. 20:00 frá höfninni. Bent er á að flugelda og blysasala björgunarsveitarinnar er opin frá kl. 15:00 – 18:00 á Þrettándanum. Skautasvellið verður svo upplýst og opið fram eftir kvöldi fyrir skautaunnendur.