22/12/2024

Þorrablót um helgina

Nú eru fjölmörg þorrablót haldin víða um land, enda er frost á Fróni og afar viðeigandi að ylja sér við súrmatinn. Um næstkomandi helgi verða haldin þorrablót á Drangsnesi og á Hólmavík, en æfingar fyrir þessi blót standa yfir á fullu þessa dagana. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is gerði sér ferð upp í félagsheimilið á Hólmavík í gær og varð vitni að örstuttu broti af skemmtiatriðum. Óhætt er að segja að það litla sem hann sá lofi afar góðu, en konurnar í nefndinni vildu hins vegar lítið tjá sig og sögðu sjón vera sögu ríkari. Forsala aðgöngumiða fyrir þorrann á Hólmavík verður í félagsheimilinu í dag, fimmtudaginn 31. janúar, milli kl.17:00-18:30.

Þar verður hægt að greiða fyrir miða og einnig verður þar hægt að skrá sig á borð, en mikil og rík borðsetuhefð ríkir á þorranum á Hólmavík – menn vilja gjarnan sitja við sama borð frá ári til árs. Eftir skemmtiatriðin á blótinu á Hólmavík mun hljómsveitin Kokkteill halda uppi fjörinu langt fram eftir nóttu. 18 ára aldurstakmark er inn á viðburðinn, en allar nánari upplýsingar og miðapantanir eru hjá Hildi í s. 661-2010 og Rúnu Stínu í s. 451-3262.

Þorranefndin á Hólmavík þenur upp raust sína. Hana skipa Hrafnhildur, Rúna Stína, Brynja, Rósa, Rakel, Inga, Hildur og Ása. Söngstjórnandinn ungi er Brynjar Freyr Arnarsson.