21/11/2024

Þorgeir Pálsson ráðinn sveitarstjóri í Strandabyggð

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í dag var samþykkt samhljóða að ráða Þorgeir Pálsson nýjan sveitarstjóra í Strandabyggð. Fjórtán umsóknir bárust um starfið. Þorgeir er fæddur á Hólmavík árið 1963 og á ættir að rekja á Strandir og til Suðureyrar við Tálknafjörð. Sambýliskona hans er Hrafnhildur Skúladóttur frá Þingeyri og eiga þau samtals fjögur börn. Þorgeir hefur starfað sem framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis sem heitir Thorp ehf. Hann hefur einnig kennt alþjóðaviðskipti og verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri og ennfremur kennt við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna. Í samtali við blaðamann strandir.saudfjarsetur.is sagðist Þorgeir hlakka til að takast á við þetta nýja starf og vinna með Strandamönnum að því að efla samfélagið í Strandabyggð.

Þorgeir er með BSc-próf í sjávarútvegshagfræði og diplómu í alþjóðaviðskiptum frá háskólum í Noregi og MBA-próf í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur lengi starfað við margvísleg ráðgjafastörf tengd stefnumótun og stjórnun, einnig við ráðgjafastörf tengd ferðaþjónustu og við sjávarútvegsverkefni hér á landi og erlendis.

Þorgeir var framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða 2008-2010. Loks má nefna að á árunum 2015-2016 stýrði hann umfangsmiklu stefnumótunarverkefni sveitarstjórnar Strandabyggðar.