22/11/2024

Þjóðlendumál í betri sátt

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Ég hef nú setið þrjá fundi um þjóðlendumál, sem haldnir hafa verið á Blönduósi, á Löngumýri í Skagafirði og nú síðast í Borgarnesi. Þessir fundir voru fróðlegir og mikilvægir. Um er að ræða flókið og viðkvæmt mál, sem verðskuldar ítarlega umræðu, en ekki yfirborðskennda, eins og við höfum alltof oft séð í fjölmiðlum.

Ég gerði á þessum fundum grein fyrir því breytta vinnulagi, sem Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra óskaði eftir við Óbyggðanefnd að tekið yrði upp. Nú liggur fyrir að Óbyggðanefnd hefur samþykkt þessa málaleitan fjármálaráðherra. Greinilega hefur komið fram að almennt líst mönnum vel á þetta breytta vinnulag. Hér er stuðst við reynsluna og reynt að bæta úr því sem betur má fara. Það er skynsamlegt og af því fullur sómi. Þess má vænta að meiri friður verði um málið og að það sáttaferli sem gert er ráð fyrir í Þjóðlendulögunum verði nýtt í vaxandi mæli.

Tilgangurinn – að skýra og styrkja eignarréttinn

Því má ekki gleyma að Þjóðlendulögunum var ætlað að skýra og styrkja þar með eignarrétt á landi. Það kemur greinilega fram í löggjöfinni og umræðum á Alþingi. Þjóðlendulöggjöfin markar á hinn bóginn ekki neina nýja stefnu varðandi eignarréttinn. Um þau mál er kveðið á í stjórnarskránni og öðrum lögum. Hæstiréttur hafði enda fellt fjölmarga dóma á þessu sviði löngu fyrir tilurð Þjóðlendulaganna. Sú löggjöf var hins vegar tæki til þess að leiða fram og skýra eignarréttinn.

Um lögin var víðtæk sátt. Sú gagnrýni sem þó kom fram laut að því að um of væri gengið til móts við sjónarmið landeigenda. Voru þar á ferð þingmenn úr vinstri flokkunum. Það er athyglisvert í ljósi umræðu þeirrar sem síðar hefur orðið. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þeir þingmenn vinstri flokkanna sem gagnrýndu lögin fyrir það að þar væri landeigendum gert of hátt undir höfði, hafi haft á röngu að standa.

Stuðlar að auknum friði

Með hinu nýja verklagi færi Óbyggðanefnd það verkefni að gera eins konar forathugun á því hvar líklegt sé að mörk þjóðlendna og eignarlanda liggi. Það gerir það að verkum að ríkið mun ekki lýsa kröfum sínum nema með hliðsjón af því sem ætla má að verði niðurstaða hins óháða aðila sem þarna á að skera úr. Fram að þessu hefur ríkið ekki haft slík gögn til að styðjast við. Þess vegna hafa kröfulýsingar ríkisins verið langt umfram það sem Óbyggðanefnd, –  úrskurðaraðilinn,-  hefur komist að raun um. Við sjáum að himinn og haf hefur skilið þarna á milli. Þetta hefur einkum valdið úlfúð þeirri sem orðið hefur vegna þessara mála. Þess er því að vænta að hið breytta vinnulag stuðli að meiri friði og kyrrð í kring um þetta vandmeðfarna mál.
Tíminn sem líður frá því að ríkið lýsir kröfu sinni og þar til óbyggðarnefnd fellir úrskurð sinn styttist líka við þetta. Óvissan verður því minni. Það er afsklaplega mikilvægt.

Fagnaðarefni

Full ástæða er  til að fagna þessum breytingum. Það er líka ástæða til þess að þakka þessa ágætu fundi. Þeir hafa verið upplýsandi  fyrir okkur sem þá hafa setið. Marga bændur hitti ég í fundarhléum og að loknum fundunum sem sögðust átta sig betur á málunum og ekki hafa af þeim sömu áhyggjurnar og forðum. Þessar umræður hafa því sannarlega orðið til góðs og því ber að fagna.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
www.ekg.is