23/12/2024

Talsverð aukning gestakoma á Galdrasýningunni

Júnímánuður í ár var með albesta móti frá því að Galdrasýning á Ströndum opnaði
vorið 2000. Að sögn Sigurðar Atlasonar hjá Strandagaldri er gestaaukningin um
30% milli ára. "Það er býsna gott", segir Sigurður, "og mesta aukningin er hjá
erlendum ferðamönnum". Ferðaþjónustuaðilum á Ströndum hefur almennt þótt
umferðin fara frekar hægt af stað og Sigurður segir það megi vera að
Galdrasýning á Ströndum sé að ná inn til sín meira af umferðinni sem fer í
gegnum svæðið en áður. Ástæðuna fyrir því segir hann ekki vita nákvæmlega en
vera megi að sýningin sé að verða þekktari erlendis með hverju árinu og að
viðurkenningin Eyrarrósin 2007 sem verkefnið fékk í vetur hafi einnig eitthvað
að segja. "Við höfum ekki verið í neinni sérstakri kynningarherferð, enda er það
dýrt og engir peningar til fyrir henni".

Sigurður telur að gríðarleg aukning umferðar húsbíla og tjaldvagna hljóti að
hafa mikil áhrif á afkomu gistiþjónustunnar. "Þessvegna verða að vera einhverjar
reglur um staðsetningu þessara gistiheimila á hjólum, það gengur ekki að vera að
byggja upp góða þjónustu sem margir eigendur húsbíla sniðganga algerlega, eins
og svo allt of mörg dæmi sína. Hann telur að sveitarfélög hljóti að fara að
setja einhverjar reglur um staðsetningu húsbíla og að ferðaþjónustan á
landsbyggðinni sé mjög viðkvæm grein sem einfaldlega megi ekki við því að missa
spón úr aski sínum.