Á morgun laugardaginn 3. júní verður opnuð sýning í Steinhúsinu á Hólmavík á handverksmunum og nytjahlutum eftir Signýju Sigmundsdóttur frá Einfætingsgili í Bitrufirði. Signý var mikil hagleikskona og bjó til marga fallega gripi úr ýmis konar efnivið. Munina á sýningunni gerði hún á árunum 1960-2000. Sýningin verður opin á morgun kl. 15.00-18.00 og á sama tíma á mánudaginn kemur, annan í hvítasunnu.
Eftir það verður opið á venjulegum opnunartímum Steinhússins á miðvikudögum og laugardögum, en ef fólk hefur hug á að skoða sýninguna utan þess tíma má hafa samband við Ásdísi Jónsdóttur í síma 694-3306.