22/12/2024

Svar við ávirðingum Matthíasar Sævars Lýðssonar

Aðsend grein: Örn Arnarson
Ástæða þessara skrifa er að mér blöskrar hvernig nafn mitt er dregið inn í grein Matthíasar Sævars Lýðssonar frá 10. maí sl. Þar vitnar hann í bloggfærslu mína um dráp á örnum í náttúru Íslands, slítur hana úr samhengi og gerir hana að jöfnu við tvær aðrar miður smekklegar færslur, þar sem meðal annars er hvatt til manndrápa. Slík orð myndi ég aldrei taka undir. Í grein sinni segir Matthías:

„Allir bloggritarnir sem til er vitnað hér stigu út fyrir mörk hins siðlega og vitræna og duttu. Hverskonar boðskapur og skilaboð eru það til samferðamanna og barna að viðfangsefni daglegs lífs megi leysa með manndrápum? Ég vorkenni aðstandendum þessara bloggara ekki neitt. Vil þó benda þeim á, að okkar ágæta geðheilbrigðiskerfi á vonandi ráð við vitglöpum af þessu tagi. En við gerum öll okkar mistök og dettum í lífinu.  Það sem skiptir máli er hvernig við rísum upp aftur, viðurkennum mistökin og lærum af þeim.“

Matthías segir hér að ég taki undir orð hinna bloggaranna um manndráp, sem er algjörlega rangt og hann fetar hálan ís þegar hann gefur það í skyn að ég sé verkefni geðheilbrigðiskerfisins!! Í minni bloggfærslu minnist ég hvergi á æðarbændur og hef ekkert við þá að sakast. Hann hefur hér dregið mig niður á plan sem ég kæri mig ekki um og finn mig því knúinn til að svara fyrir mig. Mitt mannorð hefur beðið hnekki vegna orða hans, ekki síst þar sem hann lætur fylgja með hvar ég starfa og hvaða trúnaðarstörfum ég gegni. Ef Matthías kýs að stíga fram, viðurkenna að hafa hlaupið á sig og biðjast afsökunar mun ég að sjálfsögðu taka það gilt.

Hér set ég inn bloggfærsluna sem Matthías vitnar til í heild sinni:

„Ég er eðlilega einskær aðdáandi arnarins og því kannski svolítið hlutdrægur. Þar fyrir utan er ég aðdáandi náttúrunnar og þeirrar fjölbreytni sem er að finna í henni. Fjöldi dýrategunda eru í útrýmingarhættu í heiminum og eru flest þróuð samfélög sammála um að þær tegundir beri að vernda út í ystu æsar. Þess vegna hryggir það mig mjög að lesa um slíka umgengni við eitt mesta stolt íslenskrar náttúru, íslenska haförninn.

Við tókum geirfuglinn í nefið og höfum nagað okkur í handarbökin síðan. Ætlum við sömu leið með örninn?

Hegðun sem þessa heyrir maður í fréttum frá Afríku þar sem veiðiþjófar drepa sjaldgæf dýr til að selja eftirsóttar afurðir til gráðugra Vesturlandabúa. Þetta er Íslendingum til skammar og á ekki að líðast. Hvað er gert við veiðiþjófa í Afríku? Þeir sleppa allavega ekki með klapp á bakið…….

(Höfundur er ákafur dýraverndarsinni og andstæðingur fáfróðra molbúa)“

Eins og sjá má hvet ég hvergi til þess að æðarbændur, eða aðrir, séu teknir og skotnir. Ég tel að allt skynsamt fólk sjái að færsla mín fer hvergi út fyrir siðsamleg mörk og tel ég það miður að hafa verið dreginn inn í þessa umræðu með þessum hætti. En Matthías, hver er ÞÍN ábyrgð?

Með fyrirfram þökk
Örn Arnarson, Akranesi