22/12/2024

Svæðisútvarpið stendur fyrir vali á sjö undrum Vestfjarða

Ljósm.: www.djupavik.comSvæðisútvarp Vestfjarða stendur nú fyrir vali á sjö manngerðu undrum Vestfjarða. Öllum býðst tækifæri til að útnefna mannvirki, sem getur verið
hús, brú, jarðgöng eða hvaðeina annað sem maðurinn hefur byggt á
Vestfjarðakjálkanum í gegnum tíðina. Tillögur skal senda á netfangið ruvest@ruv.is eða á Svæðisútvarpið, Aðalstræti
4, 400 Ísafirði. Tillögurnar þurfa að vera rökstuddar í stuttu máli en fimm
manna dómnefnd skipuð helstu mannvirkjasérfræðingum svæðisins munu skera úr um
þær tillögur sem berast. Hægt er að skila inn tillögum til loka
ágústmánaðar. Síldarverksmiðjan í Djúpavík er líkleg til að fá allnokkrar tilnefningar í
vali um merkilegustu mannvirki á Vestfjörðum og er sannarlega mikið undur. Eflaust detta einhverjum í hug önnur mannvirki sem koma til álita, gamlir hákarlahjallar eða önnur hús og mannvirki sem hafa einstakan byggingarstíl eða sögu. 

Hafist var handa við byggingu síldarverksmiðjunnar í Djúpavík árið 1934 og hún var tekin í notkun aðeins rúmu ári síðar eða þann
7. júlí 1935. Allt efni var flutt á skipi í Djúpavík, en þangað kom ekki vegur fyrr en löngu eftir að starfseminni var hætt. Verksmiðjan var lengi vel langstærsta steinsteypta bygging á
Íslandi, 90 metra löng á þremur hæðum, steypt í hólf og gólf og hvergi er timbur að finna
í þökum né annars staðar.

Verksmiðjunni var lokað árið 1954 eftir nokkrar
misheppnaðar tilraunir í nokkur ár þar á undan við að nýta þetta mikla mannvirki
til annarra starfa eftir að síldin var horfin. Síldarverksmiðjan í Djúpavík var
teiknuð af Guðmundi Guðjónssyni sem síðar var forstjóri fyrirtækisins.
Undanfarin ár hafa núverandi eigendur verksmiðjunnar verið að vinna að
endurbótum á húsinu, en það er gríðarmikið verk eins og má vel ímynda sér. Hægt
er að fá leiðsögn í gegnum bygginguna og í vélarsal hennar er Sögusýning
Djúpavíkur, sem segir frá tímum síldaráranna. Hægt er að fræðast um
síldarverksmiðjuna í Djúpavík á heimasíðu Hótels Djúpavíkur www.djupavik.com og fólk er hvatt til að líta
við og líta á þessa merkisbyggingu í framhaldi af því.

Ljósm.: www.djupavik.com
Ljósm.: www.djupavik.com