22/12/2024

Svæðisleiðsögn fyrir Vestfirði kennd í haust

Seiður

Nú í haust hefst nám í svæðisleiðsögn um Vestfirði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námið er þrjár annir og lýkur í desember 2017. Þetta er í fjórða sinn sem námið er í boði á svæðinu og hafa þeir hópar sem hafa útskrifast verið nokkuð fjölmennir. Ákveðið er að námið fari af stað í haust og enn er hægt að bætast í hópinn, en til að hefja nám þarf umsækjandi að vera orðin 21 árs og hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám. Allar nánari upplýsingar og umsóknarblað má finna á vef Fræðslumiðstöðvar http://frmst.is/. Til þess að lækka námskostnað nemenda hefur Fræðslumiðstöðin fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða.

Á vef Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða segir um námið:

„Þegar þátttakendur í náminu eru spurðir hvað hafi staðið upp úr og hvað hafi nýst þeim best eftir námið þá nefna flestir hvað það hafi verið einstaklega skemmtilegt að kynnast fólki sem hafði sömu áhugamál, þ.e. ástríðu fyrir einstakri náttúru og sögu Vestfjarða, útiveru og ferðalögum. Enda hafa þátttakendur myndað með sér góð tengsl  sem nýtast vel í starfi og tómstundum. Raunin hefur orðið sú að velflestir sem ljúka svæðisleiðsögunámi vinna á einhver hátt við ferðaþjónustu, sem leiðsögumenn, reka eigin ferðaþjónustu eða ferðaskrifstofur, bílstjórar, í upplýsingagjöf, á gistiheimilum og svo mætti lengi telja.

Þó svo námið miði að því að búa þátttakendur undir að fylgja ferðamönnum um Vestfirði eða þjónusta þá á annan hátt þá er  það opið fyrir alla og alltaf hafa verið einhverjir þátttakendur sem eingöngu eru að láta þann draum rætast að fræðst um heimahagana og kynnast þeim enn betur, þó þeir ætli ekki í ferðaþjónustu. Sem sagt námið er í hnotskurn hagnýtt, fróðlegt og skemmtilegt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur fræðast um helstu ferðamannastaði á Vestfjörðum, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni. Fyrirlesarar og kennarar eru allir leiðsögumenn og/eða sérfróðir um einstaka málaflokka.

Það er ljóst að með auknum ferðamannastraum til Íslands, og þar af leiðandi til Vestfjarða, er mikil þörf fyrir eflingu náms í þessum málaflokki. Ferðamálastofa, ferðaþjónar og almenningur kallar eftir faglegum vinnubrögðum og aukinni þekkingu innan greinarinnar og er svæðisleiðsögunám kjörin leið til að efla þekkingu þeirra sem starfa í þessum geira.

Hópurinn sem fer af stað í haust mun að stórum hluta stunda námið sem fjarnám í gegnum Skype for business og aðra samskiptavefi. Með því móti gefst nemendunum færi á að stunda námið nánast hvar sem er ef þeir hafa gott netsamband. Hluti námsins er hins vegar kenndur í fimm staðlotum um helgar víðsvegar um Vestfirði. Er það að margra áliti skemmtilegasti hluti námsins þar sem þátttakendur fá tækifæri til að þjálfa sig í praktísku hlutunum og ferðast um svæðið í rútu. Í námslotur er skyldumæting.

Námið er í samvinnu við Leiðsöguskólann í Kópavogi sem ber faglega ábyrgð á því. Námið er alls 23 einingar og matshæft inn í Leiðsöguskólann ef fólk hefur áhuga á að bæta við sig og ljúka leiðsögumannanámi með réttindum. Námið byggir á námskrá fyrir leiðsögunám sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu árið 2004. Umsjón námsins er í höndum Sólveigar Bessu Magnúsdóttur verkefnastjóra hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Hún útskrifaðist sjálf sem svæðisleiðsögumaður 2011 og starfar við eigin ferðaþjónustu á sumrin.“