Nú er diskurinn með Hamingjulaginu 2007, Hólmavík er best, kominn í sölu. Lagið vann lagasamkeppni sem var haldin á Hólmavík þann 19. maí og hefur síðan verið útsett með írsk-keltnesku ívafi og slatta af kímni. Kímnin felst þó sérstaklega í textanum sem inniheldur nett skot á hin ýmsu bæjarfélög landsins. Lag og texti eru eftir Arnar S. Jónsson á Hólmavík sem jafnframt flytur lagið. Diskurinn kostar aðeins kr. 700 og fæst í Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík og Sauðfjársetrinu í Sævangi. Einnig er hægt að panta hann í gegnum netfangið addibro@jonsson.is. Hér fyrir neðan gefur að líta texta lagsins:
Hólmavík er best
Lag og texti: Arnar S. Jónsson
Í rokinu í Grindavík er alltaf soldið kalt
í sjoppunni á Kópaskeri er ekki til neitt malt
á Selfossi og Hveragerði jarðskorpan er þunn
og sundlaugin á Ísafirði, hún er alltof grunn.
Ég ráfaði um Raufarhöfn í rokinu um hríð
í Reykjavík er ofbeldi og innbrot eru tíð
á vertíð úti í Vestmannaeyjum fann það fyrir rest
að búa heima á Hólmavík, það væri alltaf best.
Hólmavík, Hólmavík,
hamingja og rómantík ,
Hólmavík, Hólmavík,
hún er engu öðru lík.
Á Húsavík þeir bráðum munu álver hafa byggt
í Eyjafirði er alltaf soldil kúadellulykt.
Hvert sem ég mun flakka, já, hvert sem ég nú fer
mun hamingjan á Hólmavík búa í hjarta mér.
Hólmavík, Hólmavík…
Nú safnast allir saman og hamingjan við völd
og endalaust við skemmtum okkur alveg fram á kvöld.
Það rignir reyndar aðeins og sólin ekki sést
það skiptir ekki máli því að Hólmavík er best.
Hólmavík, Hólmavík… x2