22/12/2024

Sumarháskóli í fuglaskoðun

Dagana 25.-29. maí mun Háskólasetur Vestfjarða halda sumarnámskeið í fuglafræði við Látrabjarg. Námskeiðið er í samvinnu við Náttúrustofu Vestfjarða og Háskólasetur HÍ á Snæfellsnesi. Á námskeiðinu verður fjallað um atferlisrannsóknir á fuglum. Meðal þess sem fjallað verður um er atferlisgerðir, samskipti einstaklinga, samskipti para á hreiðurstað og geldfugla. Einnig verður fjallað um fuglamerkingar, aðferðir til að veiða fugla til merkinga og söfnun lífsýna. Námskeið sem þetta er eitthvað sem enginn fuglaáhugamaður ætti að láta fram hjá sér fara.

Námskeiðið er ætlað öllum fuglaáhugamönnum sem vilja upplifa fuglaskoðun og rannsóknir við Látrabjarg og læra þar af helstu fuglasérfræðingum landsins, en fyrirlesarar eru dr. Tómas Gunnarsson og dr. Þorleifur Eiríksson og leiðbeinendur eru þau Böðvar Þórisson og Hildur Halldórsdóttir. Nánari upplýsingar um námskeiðið, dagskrá, fyrirlestra, skráning o.s.frv. er að finna á vef Háskólaseturs Vestfjarða, www.hsvest.is.