21/11/2024

Styrkur til vinnslu á kræklingi á Ströndum

Nokkrir styrkir í hlut vestfirskra verkefna við úthlutun úr AVS rannsóknasjóðnum vegna átaksverkefnisins Atvinnuþróun og nýsköpun í heimabyggð, svo sem sjá má á vefnum www.avs.is. Eitt þessara verkefna á rætur á Ströndum, en það ber titilinn Atvinnusköpun með vinnslu á kræklingi, virðisauki í heimabyggð. Komu þrjár milljónir í hlut verkefnisins sem Kaupfélag Steingrímsfjarðar stendur að. Um er að ræða nýjan flokk verkefna hjá AVS-sjóðnum, þar sem sérstök áhersla er lögð á atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum landsins.

Fyrst og fremst er lögð áhersla á styttri verkefni sem eiga að vinnast á innan við 12 mánuðum og geta skapað ný störf og aukin verðmæti í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið.

Lykilhugtök í þessum nýja verkefnaflokki AVS eru matarferðamennska, hönnun, nýtt hráefni, sjálfbærni, uppruni, ferðaþjónusta, vöruþróun, fullvinnsla, vörur í smásölu eða á borð neytenda, nýjar tegundir, smáframleiðsla og fleira.