24/11/2024

Styrkir Menningarráðs afhentir á föstudag

Á föstudaginn næsta, þann 7. desember, mun Menningarráð Vestfjarða úthluta verkefnastyrkjum vegna ársins 2007 við hátíðlega athöfn í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík. Á dagskránni sem hefst klukkan 14:00 verður afhending vilyrða fyrir styrkjum, auk þess sem Gunnar Hallsson formaður Menningarráðs Vestfjarða og fulltrúi Menntamálaráðuneytisins flytja erindi. Formaður Fjórðungssambands Vestfjarða Anna Guðrún Edvardsdóttir stýrir athöfninni. Þá fá gestir sýnishorn af vestfirskri menningu eins og hún gerist best, auk þess sem léttar veitingar verða í boði.

Starfsemi Menningarráðs Vestfjarða byggir á samningi ríkis og sveitarfélaga um eflingu menningarstarfs á Vestfjörðum. Þetta er í fyrsta skipti sem styrkjum er úthlutað, en umsóknarfrestur um styrki var til 2. nóvember síðastliðinn og var við úthlutun tekið mið af sérstökum úthlutunarreglum. Alls bárust 104 umsóknir um stuðning, samtals að upphæð rúmar 72,5 milljónir kr. Menningarráð Vestfjarða hefur nú samþykkt að veita styrki til 52 verkefna fyrir árið 2007, samtals að upphæð rúmar 20 milljónir. Öllum umsækjendum hafa verið send svör með niðurstöðu varðandi umsóknir þeirra.

Vefur Menningarráðs Vestfjarða er á vefslóðinin www.vestfirskmenning.is.