22/12/2024

strandir.saudfjarsetur.is þriggja ára í dag

Í dag eru liðin þrjú ár síðan héraðsfréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is var opnaður formlega og byrjaði að flytja fréttir af Ströndum og Strandamönnum og uppátækjum þeirra. Fyrirtækið Sögusmiðjan á og rekur vefinn, en ritstjórn hefur verið eins skipuð frá upphafi. Í henni sitja Jón Jónsson, Sigurður Atlason og Arnar S. Jónsson. Vefnum er viðhaldið í sjálfboðavinnu, en enginn blaðamaður starfar hjá vefnum. Tilvera hans byggist alfarið á dugnaði ritstjórnarmanna og því efni og myndum sem ritstjórn fær sent til birtingar frá velunnurum vefjarins og fréttariturum sem einnig vinna í sjálfboðavinnu. Nýtt fólk sem vill leggja hönd á plóg er hvatt til að hafa samband við ritstjóra og öllu efni sem hæfir til birtingar er tekið fagnandi.