30/10/2024

Strandhögg um helgina

Nú er Strandhögg að skella á en þá halda þjóðfræðingar og sagnfræðingar í ráðstefnuferð um Strandir og hlýða á fyrirlestra víðs vegar um svæðið. Heimafólki og áhugamönnum er einnig boðið að taka þátt og mæta á einstaka hluta Strandhöggsins eða ráðstefnuna í heild, en hún fer fram víða á Ströndum. Það eru félög þjóðfræðinga og sagnfræðinga sem halda Strandhöggið sem er um leið 10. landsbyggðaráðstefna þeirra, í samstarfi við Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Heimamenn og valinkunnir fræðimenn halda fróðleg erindi um sögu og þjóðfræði á vettvangi – allt frá Konungsvörðu og norður í Krossneslaug.

Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Strandhögg“ en umfjöllunarefnið tengsl Íslands við umheiminn; jaðars og miðju, bæði í staðbundnu samhengi sem alþjóðlegu. Meðal annars verður vikið að blómlegri síðari alda handritamenningu á jaðri Evrópu; iðkun ímynda norðursins á erlendri grundu; iðnaði erlendra þjóða á Íslandi 17. aldar í óþökk konungs; förumönnum og þjóðfræði á mörkum mennskunnar; og framtíð fræða og lista á landsbyggðinni. Auk þess verður sagt frá þjóðfræði og sögu Stranda. Fyrirlestrarnir verða fluttir á hinum ýmsu áföngum ferðarinnar og á málþingi í Bragganum á Hólmavík á sunnudeginum.

Áhugasamir heimamenn eru hvattir til að slást í för og hlýða á og taka þátt í Strandhögginu og er þeim bent á tímaáætlun fyrirlestra á vefsíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is. Nánari upplýsingar má einnig fá hjá Kristni Schram í síma 8661940 og dagskráin er hér að neðan.

Dagskráin er í stuttu máli þannig (tímasetningar á laugardegi geta breyst):

Föstudagurinn 12. júní
20:30 Móttaka á Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð.

Kristinn Schram forstöðumaður Þjóðfræðistofu og Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins bjóða fólk velkomið.

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur flytur hugvekjuna Krossfesting og upprisa sauðkindarinnar.
Sauðfjársetrið opið. Söngur og gleði.

Laugardagurinn 13. júní
9:00 Lagt af stað úr Steingrímsfirði.

Magnús Rafnsson leiðsegir um Kaldrananeshrepp.

9:30 Selkollusteinn á Bassastaðahálsi – Gunnvör Karlsdóttir íslenskufræðingur heldur erindið Skilaboð Selkollu.
10:15 Klúka – Kotbýli Kuklarans skoðað og sagt frá handritamenningu í Bjarnarfirði.
11:30 Eyjar, fornleifauppgröftur – Magnús Rafnsson sagnfræðingur: Hvalveiðar útlendinga á Ströndum á 17. öld.

Rakel Valgeirsdóttir leiðsegir um Árneshrepp.

13:30 Djúpavík – Sýningar í síldarverksmiðjunni skoðaðar.
14:40 Gjögur – Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur flytur fyrirlesturinn: Óvænt endalok. Einsögurannsóknir á Ströndum.
Stóra Ávík – Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur fjallar stuttlega um Jón lærða þar sem hann bjó. Gengið að Kistunni.
Kistan í Trékyllisvík – Sigurður Gylfi Magnússon flytur erindi Más Jónssonar sagnfræðings Hvar var þremur körlum í eldinn kastað haustið 1654?
16.30 Kört – Rakel Valgeirsdóttir þjóðfræðingur heldur erindið Álagablettir í Árneshreppi.

Minja- og handverkshúsið Kört skoðað

18:15 Krossneslaug í Norðurfirði – Sumarliði Ísleifsson ræðir um Hugmyndina um norðrið.

Gleðskapur á Hótel Djúpavík um kvöldið

Sunnudagurinn 14. júní
13:00-15:00 Opin málstofa í Bragganum á Hólmavík um menningararf og jaðarmenningu.

Guðrún Ása Grímsdóttir: Rekastrandir og rétttrúnaður
Andrea Harðardóttir: Vestfirðir á miðöldum – samstarfsverkefni
Jón Jónsson: Á mörkum mennskunnar – förumenn í bændasamfélaginu
Kristinn Schram: Að innbyrða útrásina
Sigurjón Baldur Hafsteinsson: Hnattvæðing að neðan: Hið íslenzka reðasafn og nýfrjálshyggja
Bryndís Björgvinsdóttir: Menningararfur og kapítalismi

Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur stýrir umræðum að erindum loknum.

15.30 Galdrasýning á Ströndum skoðuð