22/12/2024

Strandamenn leita á verkstæði í Búðardal

Nokkuð algengt hefur verið að Hólmvíkingar og nærsveitungar sæki þjónustu á bílaverkstæðið KM-þjónustan í Búðardal eftir að vegurinn um Arnkötludal var opnaður, að sögn Karls Inga Karlssonar yfirmanns á verkstæði. KM-þjónustan býður upp á almennar viðgerðir á bílum og vélum, þar á meðal bilanagreiningu í tölvu. Einnig sinnir verkstæðið smurþjónustu, býður upp á dráttarbílaþjónustu, járnsmíði, dekkjaviðgerðir og fleira. Tveir Strandamenn starfa á verkstæðinu sem spillir örugglega ekki fyrir aðsókninni, Karl sjálfur er frá Borðeyri og einnig starfar Brynjólfur Gunnarsson frá Broddadalsá þar. Vefur verkstæðisins er á slóðinni www.km.is.