Tuttugu manns á öllum aldri, frá Skíðafélagi Strandamanna, tóku þátt í Fossavatnsgöngunni sem fram fór á Ísafirði í gær. Strandagangan er elsta almenningsgangan á Íslandi og hefur verið haldin síðan 1935. Gönguleiðin er afar falleg og útsýnið frábært þegar komið er frá Botnsheiði og niður á Seljalandsdal. Gengnir eru 7, 10, 20 og 50 km. Eftir gönguna var glæsileg kaffiveisla í íþróttahúsinu í Torfnesi. Úrslit göngunnar birtast á vefnum www.fossavatn.com.
Á þriðjudaginn, 1. maí, verður sprettganga Skíðafélags Strandamanna, sem jafnframt er síðasta mót vetrarins. Um kvöldið heldur félagið síðan smá uppskeruhátíð, þar sem fjölskyldurnar grilla saman og veitt verða verðlaun fyrir mætingu, framfarir og frammistöðu í vetur.
Sveitin Strandakrakkar varð í 3.sæti í sveitakeppni í 7 km. Í henni voru þau Dagrún Kristinsdóttir, Einar Friðfinnur Alfreðsson og Jakob Ingi Sverrisson. Dagrún varð einnig í 2. sæti í 7 km göngu kvenna.
Sveitin SKÓ varð í 3.sæti í sveitakeppni í 10 km. Í henni voru þau Sigrún Kristinsdóttir, Kristján Páll Ingimundarson og Ólafur Orri Másson. Kristján Páll varð einnig í 2. sæti í 10 km göngu karla.
Sveitin Strandir og Norðurland vestra varð í 2. sæti í 50 km göngu karla. Í henni voru þeir Magnús Eiríksson og Þórhallur Ásmundsson (hann vantar á myndina) frá Siglufirði og Ragnar Bragason á Heydalsá. Við hlið þeirra eru sænskir skíðakappar sem voru meðal erlendra gesta á Fossavatnsgöngunni.
30: Ragnar Bragason varð í þriðja sæti fyrir samanlagðan stigafjölda í Íslandsgöngunni, sem telur 5 göngur yfir veturinn. Hann fékk bikar að launum.
Ljósm. Kristín S. Einarsdóttir